143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

könnun á hagkvæmni þess að draga úr plastpokanotkun.

102. mál
[16:13]
Horfa

Flm. (Margrét Gauja Magnúsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi orð hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur. Á Íslandi eru til samtök sem heita „Plastpokalausir laugardagar“ sem hvetja fólk til að nota ekki plastpoka þegar það fer í verslunarleiðangur á laugardögum. Þetta er orðið á grasrótarplani, fólk vill að fleiri skref verði stigin en það að flokka pappa, að við förum líka að spyrna við fótum þegar kemur að framleiðendum og verslununum sjálfum.

Þegar urðun var bönnuð í Þýskalandi sýndu íbúar þar borgaralega óhlýðni og skildu megnið af umbúðunum eftir í kjörverslununum sjálfum sem olli því að Cheerios-pakki frá Þýskalandi er ekki innpakkaður í plast og pappa heldur bara í pappann. Þar voru gerðar nauðsynlegar breytingar, en það var neytandinn sem þurfti að spyrna við fótum.

Ég hef líka oft heyrt þessa umræðu og þar sem ég er sjálf með stórt og þungt heimili hef ég velt þessu fyrir mér: Hvað geri ég þá? Ef ég er ekki með plastpoka við höndina, hvað verður um ruslið? Það eru til maíspokar sem brotna niður. Það er hægt að henda úrgangi beint í tunnuna, það þarf ekki að setja hann í plastpoka. Fólk sem flokkar rusl getur líka nýtt sér grenndargámana betur og endurvinnslustöðvar og þar með dregið úr því magni sem fer í tunnuna og dregið um leið úr plastpokanotkun.