143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

könnun á hagkvæmni þess að draga úr plastpokanotkun.

102. mál
[16:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka undir og lýsa stuðningi við þá þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar um könnun á hagkvæmni þess að draga úr plastpokanotkun. Eins og fram kom í máli framsögumanns, hv. þm. Margrétar Gauju Magnúsdóttur, valda plastpokar miklum sóðaskap og hreinlega umhverfisvá og því er í mínum huga sjálfsagt að leita allra leiða til að skoða hvernig við getum dregið úr notkun okkar á þeim.

Það er mjög freistandi að reyna einhvern veginn úr ræðustól Alþingis að vitna í lag Megasar, Plastpokablús, enda leiðir hin mikla notkun okkar á plastpokum ákveðinn blús yfir okkur og þar með umhverfi okkar, en ég er ansi hrædd um að lengra verði varla komist í vísunum í þetta ágæta lag nema rétt að tæpa á titlinum þar sem sá sem þar er sungið um yrði varla neitt kræsilegri persónuleiki þó að hann færi um bæinn með fjölnota taupoka.

Ég held hins vegar að við hin ættum sem oftast að vera með taupoka í fórum okkar. Ég trúi því hreinlega að þessi þingsályktunartillaga muni ná fram að ganga, mér finnst hún einhvern veginn þess eðlis og vona að hún fái mjög góða umfjöllun í nefnd. Ég hlakka satt að segja til að fá að sjá svart á hvítu hagkvæmnina í því að við drögum úr plastpokanotkun okkur og hreinlega allri plastnotkun.

Takk fyrir að koma með þetta frábæra mál hingað inn.