143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

umbótasjóður opinberra bygginga.

103. mál
[16:37]
Horfa

Flm. (Margrét Gauja Magnúsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessi orð og fagna því að hann skuli taka undir tillögu mína og hafa þennan djúpa og góða skilning á málinu, á því hve þörfin er mikil. Það væri held ég líka gott fyrir þingmenn, sem koma alls staðar að af landinu, að fá úttekt frá Fasteignum ríkissjóðs og sveitarfélögunum 75 í kringum landið, að fá greinargerð og úttekt á því hvaða byggingar er um að ræða. Þetta geta líka verið vitar. Ég veit að það er starfandi vitavinafélag á Íslandi en erum við til dæmis með gamla fallega vita sem liggja undir skemmdum og hafa ekki hlutverk í dag?

Það væri skynsamlegt að taka þetta saman, kostnaðargreina og óska eftir tillögum. Eins og ég kom að í ræðu minni áðan þá er ekkert sem hindrar það heldur að þetta sé samstarfsverkefni þriggja aðila, þ.e. ríkisvaldsins, sveitarfélaganna í kring og einkaaðila sem væri með metnaðarfulla og góða hugmynd sem gæti fengið þessum húsum nýtt hlutverk. Það þarf bara að móta þetta og um það snýst þessi þingsályktunartillaga að við tökumst á við verkefnið og gerum áætlun til framtíðar til að finna þeim húsum sem í hlut eiga veglegt hlutverk.