143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

virðisaukaskattur.

166. mál
[17:16]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svo algjörlega ósammála hv. þingmanni, hann leggur þetta fram sem mótrök við því að ríkissjóður gefi frádrátt á virðisaukaskatti vegna kaupa á varmadælum. Ég verð bara að lýsa undrun minni á þeirri nálgun hjá hv. þingmanni að það sé betra að fólk kaupi áfram dýra orku, sem rynni annars til sjávar, þó að það muni sligast undan húshitunarkostnaði, eða þá, eins og hv. þingmaður gefur í skyn, að ríkissjóður taki bara tekjur sínar, sem eru ekkert allt of miklar — gjaldeyririnn er dýrmætur og af skornum skammti en krónur ríkissjóðs eru líka fáar og dýrmætar og það er mikilvægt að ráðstafa þeim í þá aðra betri hluti en þarna yrði gert hvað varðar auknar niðurgreiðslur.

Varðandi það að kaup á varmadælum gefi frádrátt á virðisaukaskatti eins og tillagan segir til um — ef enginn eða fáir kaupa varmadælur eins og staðan er í dag þá fær ríkissjóður hvort sem er engar tekjur. Ef þetta gengur hins vegar eftir og fleiri kaupa dælur munu íbúarnir fá mikinn fjárhagslegan hagnað af því og þá er hægt að nota þá peninga í annað.

Virðulegi forseti. Ég verð bara að segja alveg eins og er að hv. þingmaður hefur oft komið mér á óvart með skoðunum sínum og við höfum ekki oft verið sammála, en í þessu efni er ég algjörlega ósammála honum.