143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

virðisaukaskattur.

166. mál
[17:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið fram. Málið er mér dálítið skylt, ég hafði atbeina að því á sínum tíma og forustu um að það var lagt fram í þrígang. Eins og hv. 1. flutningsmaður málsins nú, Kristján L. Möller, rakti var það eiginlega komið á síðustu metrana að hljóta fullnaðarafgreiðslu á Alþingi síðastliðið vor. Ég hef ekki getað staðið fyrir málinu vegna breyttra aðstæðna minna og þess vegna fagna ég því að hv. þingmaður og aðrir þingmenn sem standa að málinu skyldu taka það upp og bera fram til efnislegrar afgreiðslu á Alþingi.

Ég ætla aðeins að koma inn á þau álitamál sem velt var upp í máli hv. 5. þm. Suðurk., Páls Jóhanns Pálssonar, um að við hefðum ekki efni á því að stuðla að innflutningi á varmadælum. Við skulum setja þá hluti í samhengi.

Í fyrsta lagi er það þannig að hér er ekki um mjög dýra framkvæmd að ræða í stóru heildarsamhengi. Auðvitað vitum við að varmadælur eru misdýrar eftir því hversu stórar þær eru, en gefum okkur að við séum að tala um varmadælu sem væri í erlendu innkaupsverði upp á kannski milljón krónur. Ef við segjum að 100 heimili keyptu slíka dælu á fyrsta ári mundi það svara til gjaldeyrisnotkunar sem er álíka og kaup á fimm almennilegum jeppum. Ég veit ekki til þess að menn hafi verið með sérstök áform um að stórhækka svo tolla á innflutningi á jeppum að það verði gert ókleift. Við höfum auðvitað verið að gera ýmsar breytingar sem stuðla að því að menn fari á minni bíla, ég er ekki að tala um það. Ég er að tala um að ef það væri leiðin mundu menn væntanlega vilja fara þá leið að gera gjörsamlega ókleift að flytja inn slíka bíla.

Það sem ég vil með öðrum orðum segja er að menn megi ekki fara að búa sér til einhverjar grýlur í því sambandi, að það að við séum að reyna að örva að menn geti keypt sér tæki til þess að draga úr heimiliskostnaði sínum muni setja allan gjaldeyrisjöfnuð í hreint uppnám.

Þetta mál er ekki annaðhvort/eða, annaðhvort fara menn þessa leið eða þá leið sem ég veit að er almennt mikill stuðningur við hér í þinginu, að reyna að jafna húshitunarkostnaðinn með því að greiða niður flutnings- og dreifingarkostnað. Við erum ekki að tala um annaðhvort/eða. Vandinn í því máli hefur snúist um, eins við vitum, að það er ekki einungis skortur á gjaldeyri heldur er líka tómahljóð í ríkiskassanum. Það hefur verið vandamál okkar þegar við höfum glímt við þetta. Það hefur ekki verið þannig að stjórnvöld hverju sinni hafi verið á móti því að lækka húshitunarkostnað, það hafa ekki verið efnahagslegar forsendur til þess og þess vegna hefur okkur ekki gengið nægilega vel að draga úr húshitunarkostnaðinum þar sem hann er mestur fyrir.

Síðan má ekki gleyma því að ekki er einungis um innflutning á varmadælum að ræða. Mér er til dæmis kunnugt um að Íslendingar framleiða líka dælurnar. Ég er alveg sannfærður um að ef þetta væri gert, sem leiddi þá til þess að menn færu í vaxandi mæli að kaupa þann búnað, mundu skapast hér tækifæri fyrir fólk sem hefur kunnáttu í þeim efnum til að fara að framleiða slíkar varmadælur á Íslandi.

Ég vil nefna í því sambandi að eftir að ég flutti frumvarpið í fyrsta skipti höfðu samband við mig aðilar sem stóðu fyrir smíði á varmadælum innan lands, sem höfðu nokkrar áhyggjur af því að tilkoma frumvarpsins, framlagning frumvarpsins yrði þess valdandi að margir sem hefðu íhugað að kaupa slíkar dælur mundu halda að sér höndum til þess að sjá hvort niðurstaða Alþingis yrði að lækka tímabundið eða öllu heldur endurgreiða virðisaukaskattinn á varmadælum. Það mundi þá leiða til þess að fólk héldi að sér höndum og salan á þeirri innlendu framleiðslu drægist fyrir vikið saman. Það er auðvitað líka hlutur sem við þurfum að íhuga. Það er mjög mikilvægt að þeirri óvissu sé aflétt. Við eigum ekki að horfa þannig á það, sérstaklega ekki við þessar aðstæður með lágt raungengi okkar, að möguleikarnir séu einungis fólgnir í því að flytja þennan varning inn. Það geta líka verið tækifæri í því einfaldlega að framleiða hann og þetta gefur okkur kannski færi á því að búa til einhvern lítinn framleiðsluiðnað sem skiptir auðvitað máli í öllu þessu.

Það er því ekki að mínu mati neitt tilefni til að hinkra hér við. Við erum ekki að tala um gríðarlega sóun á gjaldeyri, þvert á móti. Fyrst og fremst er verið að tala um eina aðferð við að lækka húshitunarkostnað á svæðum þar sem hann er sligandi fyrir. Það breytir hins vegar engu um að okkar markmið, eins og málin standa núna, hljóta að vera þau að stuðla að því og tryggja það að húshitunarkostnaður á köldum svæðum lækki og það sé gert með þeim hætti sem uppi hafa verið tillögur um, að dreifingarkostnaðurinn sé greiddur niður að öllu leyti, flutnings- og dreifingarkostnaðurinn. Það sé hið samfélagslega verkefni en það sé ekki kostnaður sem leggist aðeins á þær 30 þúsund sálir sem búa við þennan mikla húshitunarkostnað. Um það hefur umræðan snúist.

Jafnvel þótt það tækist, sem ég bind vonir við, yrði húshitunarkostnaðurinn á þeim svæðum enn þá talsvert hærri en til að mynda á húshitunarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur, það væri þannig. Þrátt fyrir að okkur tækist að lækka húshitunarkostnaðinn með því að greiða niður flutningskostnaðinn væri húshitunarkostnaðurinn enn þá til staðar og yrði hærri hjá því fólki sem býr við slíkar aðstæður. Og jafnvel þótt við næðum markmiðinu ætti hugmyndin um varmadælu fullt erindi gagnvart því fólki til að reyna að stuðla að lækkun á húshitunarkostnaði.

Virðulegi forseti. Mér finnst ekki gott ef menn reyna að búa sér til einhverja biðleiki í þeim efnum, ef menn reyna að koma hælkróki á málið núna þegar það er borið upp hér af þingmönnum úr fimm stjórnmálaflokkum. Það vekur að sjálfsögðu athygli að þetta er í fjórða sinn sem við leggjum frumvarpið fram, þetta er í fjórða sinn sem þingmenn úr jafn mörgum stjórnmálaflokkum og hérna eru, fimm stjórnmálaflokkum, hafa borið slíkt mál fram. Það er líka rétt sem hv. 1. flutningsmaður nefndi áðan, að í efnahags- og viðskiptanefnd skapaðist mikil samstaða um málið. Menn horfðu einfaldlega á rökin með og á móti og komust að þeirri niðurstöðu að þetta væri skynsamleg leið.

Þetta er líka vistvæn leið, þetta er líka leið sem sparar orku sem gefur þá tækifæri til þess að nýta hana til annarra hluta. Það eru ekki rök í sjálfu sér að segja að vegna þess að við erum með svo mikla orku núna þurfum við ekki að hugsa um að spara orku. Einhvern tíma hljóta þær aðstæður að breytast og orkusparnaður í sjálfu sér er markmið vegna þess að þá þurfum við ekki að nýta þessa orku til húshitunar, sem er ekki mjög arðbær aðferð. Það er miklu arðbærari aðferð að nýta heita vatnið til þess. Við gerðum breytingar á löggjöfinni sem skiptu máli á síðasta kjörtímabili þegar ákveðið var að greiða niður stofnkostnað í hitaveitum sem svaraði ekki átta árum, eins og áður hafði verið við niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar á þessum svæðum, heldur tólf árum sem hefur gert það að verkum að ýmsar hitaveituframkvæmdir sem áður höfðu verið taldar óhagkvæmar urðu hagkvæmar.

Ég tek dæmið um hitaveituvæðinguna í Hegranesinu í Skagafirði. Forsendan fyrir því að hægt var að fara þá leið var sú ákvörðun Alþingis á sínum tíma að breyta lögunum og heimila þessar niðurgreiðslur þannig að þær samsvöruðu tólf ára niðurgreiðslu á stofnkostnaði, sem samsvaraði tólf ára niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði á þessum svæðum, og það opnaði þessa möguleika. Það er auðvitað dálítið áhugavert að fylgjast með því að það hafa verið tekin — þrátt fyrir að á sínum tíma, fyrir tveimur, þremur, fjórum árum síðan, eins og er rakið hér í greinargerðinni, hafi menn verið komnir á þá skoðun að við værum komin að einhverjum endimörkum varðandi að nýta heita vatnið í frekari mæli til húshitunar í landinu — dálítil skref í þeim efnum og býsna stór skref voru stigin á þessu ári. Þar spilaði að mínu mati breytingin á niðurgreiðslu á stofnkostnaðinum langstærstu rulluna. Ætli það séu ekki svona þúsund manns sem í fyrra bjuggu við háan húshitunarkostnað sem munu búa við hitaveitu að hluta til á þessu ári og að öllu leyti á næsta ári? Þetta er heilmikil breyting og býsna stórt hlutfall af þeim íbúafjölda sem hefur búið við háan húshitunarkostnað. Við erum því sem betur fer að ná árangri.

Svo er það hitt sem hv. þm. Haraldur Benediktsson, 4. þm. Norðvest., vakti athygli á, og það er að með því að nota þessar varmadælur verður hægt með hagkvæmari hætti að nýta heitt vatn eða volgt vatn sem nær ekki nægilega háu hitastigi til þess að arðbært sé að nota það sem hitaveituvatn. Með notkun varmadælnanna skapast möguleikar á því að nýta vatnið, þótt það nái ekki nægilegu hitastigi að öðru leyti, til þess að kynda upp húsin á hagkvæmari hátt sem enn og aftur stuðlar að því að færra og færra fólk þurfi að búa við háan húshitunarkostnað.

Virðulegi forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa neitt mörg orð um þetta. Ég tel hins vegar ástæðu til þess að vekja athygli á því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að um sé að ræða átak til fimm ára. Hvers vegna var það gert? Jú, þetta er hugsað til þess að reyna að hvetja sem flesta á sem skemmstum tíma til að fara í þessa fjárfestingu til að það skili árangri sem fyrst. Það er ekki verið að tala um, a.m.k. í þessu frumvarpi, að gera þetta varanlega. Það er verið að gera þetta í átaksformi til að reyna að stuðla að því að menn fari þessa leið til að draga úr húshitunarkostnaði sínum. Það kemur ekki í staðinn fyrir þær hugmyndir sem við mörg hver, og ég vil fullyrða meiri hluti Alþingis, hefur haft um að lækka húshitunarkostnaðinn á köldu svæðunum með því að greiða niður að fullu dreifingarkostnaðinn, gera hann að samfélagslegu verkefni í stað þess að leggjast á herðar lítils hluta þjóðarinnar. Þetta mál kemur ekkert í staðinn fyrir það, en það getur verið einn hluti af lausn á mjög alvarlegu vandamáli sem er til staðar í þeim byggðum sem búa við háan og mikinn húshitunarkostnað.

Gleymum því ekki að þegar við skoðum til dæmis íbúaþróunina í landinu er það oft á tíðum og í mjög mörgum tilvikum þannig að þau svæði sem búa við sligandi kostnað eru þau svæði sem hafa verið að gefa eftir í byggðalegu tilliti og það blasir auðvitað við hvers vegna það er. Það blasir við í þeim töflum hérna sem hv. 1. flutningsmaður málsins gerði að umtalsefni. Það blasir við að þegar menn borga kannski þrefalt hærra húshitunarverð, eins og kemur fram í töflunum, en gerist á höfuðborgarsvæðinu eða á orkuveitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur verða búsetuskilyrði verri. Það verður minna ákjósanlegt að búa á þeim svæðum og byggðin gefur eftir.

Hér er því líka um að ræða það þjóðfélagslega markmið að stuðla að því að íbúaþróunin ráðist af öðrum þáttum en þeim sem húshitunarkostnaðurinn veldur.