143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

virðisaukaskattur.

166. mál
[17:42]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa mikilli ánægju með þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, sem er um varmadælur. Mér finnst þetta svo mikið réttlætismál að það ætti að fara með hraði í gegnum þingið. Ég kem upphaflega af köldu svæði en bý nú á mjög heitu svæði. Þegar ég fer að hugsa þetta mál þá eru það forréttindi sem maður býr við, nákvæmlega eins og nafni minn, hv. þm. Páll Jóhann Pálsson, getur vitnað um, við njótum þeirra forréttinda að búa suður í Grindavík þar sem nóg er af heitu vatni.

Stór hluti fjölskyldu minnar býr aftur á móti austur á Vopnafirði. Þar er húshitunarkostnaður sligandi. Ég fer eins oft og ég get austur á Vopnafjörð til að hitta fjölskyldu mína og vini og oftar en ekki kemur pólitík til umræðu. Eitt af aðalmálum í þeirra augum er að jafna húshitunarkostnað hvernig sem farið verði að því, um hrópandi óréttlæti sé að ræða og það er alveg óhætt að taka undir það.

Bróðir minn sem til margra ára bjó í Reykjavík flutti aftur austur á Vopnafjörð og keypti sér býli úti í sveit. Það lá við að það liði yfir hann þegar hann fékk fyrsta rafmagnsreikninginn, hann var svo hrikalega hár. Hann sýndi mér reikninginn og ég átti ekki eitt einasta orð. Fyrir mér er þetta gríðarlegt réttlætismál. Við eigum að leita allra leiða til að jafna þennan kostnað þannig að allir búi við sömu lífskjör og mannréttindi, sem þetta snýst í raun um, í landinu.

Ég man þá tíð þegar hitakútarnir komu fyrst, þá mátti maður ekki vera lengi í sturtu. Mamma gamla var þá farin að kalla: „Heyrðu, það er tími á því sko.“ Nú stendur maður í sturtunni heima hjá sér tímunum saman ef því er að skipta.

Á Kirkjubæjarklaustri í Skaftárhreppi kyntu þeir skólann og sundlaugina upp með sorpbrennslu. Því miður urðu þeir að loka vegna þess að mengun var langt yfir viðmiðunarmörkum. Þeir ákváðu að keyra sorpið í burtu á bílum — sem mengaði örugglega jafn mikið, en það er nú önnur saga. Þeir ákváðu að kaupa sér varmadælu. Kostnaðurinn á hverju ári við að hita upp sundlaug og skóla var 14,5 milljónir. Þeir reikna með því að þegar varmadælan verður komin í fullan gang verði búið að lækka þann kostnað um 50%. Það eitt réttlætir þetta frumvarp. Þó að mörg sjónarmið séu í þessu og mikið af vannýttri orku er þetta bara einn liður í því, og kannski fyrsta skrefið, að reyna að jafna það óréttlæti sem á sér stað hvað varðar upphitun húsa.

Ég styð málið heils hugar. Ég sé að einn úr mínum flokki er á frumvarpinu. Ég hefði gjarnan viljað vera á því sjálfur, en ég styð það heils hugar og vona að það fái skjótan framgang í nefnd og verði samþykkt fyrir jól.