143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

virðisaukaskattur.

166. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka öllum þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðu um þetta mikilvæga og góða frumvarp sem flutt er af 14 þingmönnum, fulltrúum fimm stjórnmálaflokka á Alþingi og er nú flutt í fjórða skipti. Ég vil þakka þeim fyrir viðtökurnar og þau dæmi sem hér hafa komið fram þó að ég hafi aðeins, ef ég má orða það þannig, skvett upp á sjónarmiðin í stuttu andsvari hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar áðan. Það sjónarmið sem hann setti þar fram er auðvitað alveg fullgilt þó að ég sé algjörlega ósammála því, en ég þakka honum engu að síður fyrir innlegg hans í umræðuna vegna þess að það er líka mikilvægt.

Hv. þm. Páll Valur Björnsson fjallaði hér um dæmi af frændfólki sínu austur á Vopnafirði, sem er alveg hárrétt. Ég get sagt sögu sem ég heyrði af Norðfirðingi sem hafði búið við hátt upphitunarverð fyrir húsnæði sitt. Hann flutti suður til Reykjavíkur í ekkert mjög stórt húsnæði, en í húsfélaginu voru fjórar íbúðir. Hann lenti í því fljótlega að vera gjaldkeri húsfélagsins og til hans bárust reikningar, þar á meðal orkureikningar. Sagan segir að hann hafi tekið þessa orkureikninga samviskusamlega mánaðarlega og borgað þá og þótti nú ekki mikið um. Síðan kom að því, virðulegi forseti, að ársuppgjör var gert hjá húsfélaginu. Þá kom í ljós að engir orkureikningar voru hjá húsfélaginu það árið og farið var að grafast fyrir um það. Var það vegna þess að orkuveitan sendi þeim ekki reikning? Nei, það var vegna þess að gjaldkerinn fékk þá og hélt að þetta væri hans eigin reikningur og borgaði fyrir íbúðirnar allar fjórar saman. Samt var upphæðin lægri en hann átti að venjast og þótti því ekki mikið til um. Ég vona að ég muni söguna nokkurn veginn rétt eins og ég hef sagt hana hér, en hún var efnislega á þann veg að íbúinn hafði aldrei séð svona lága orkureikninga og honum fannst alveg sjálfsagt að borga þetta.

Virðulegi forseti. Hér höfum við gert að umtalsefni húshitunarkostnað og tekið dæmi úr fylgigögnum með frumvarpinu um 180 fermetra húsnæði á dreifbýlissvæði Rariks. Í október 2010 var upphitunarkostnaður þess talinn vera 238 þús. kr. Á sama tíma var upphitunarkostnaður á sambærilegu húsnæði hjá Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavík tæpar 93.500 kr. Við sjáum muninn.

Virðulegi forseti. Ef okkur tækist með varmadælu að lækka orkureikning íbúans á dreifbýlissvæði Rariks um 50%, sem ég er ekki í nokkrum vafa um að mundi takast, færi kostnaðurinn niður í 119 þús. kr. Ef næðist sá besti árangur sem maður hefur heyrt um, í prósentum talið, eða um 60% sparnaður, færi hann niður í sama verð og Reykvíkingurinn borgar fyrir sambærilegt húsnæði í Reykjavík, eða 95.200 kr. Þetta er miðað við tölur frá 2010. Ég hygg að hlutfallið hafi algjörlega haldist, þannig að þetta er alveg sambærilegt. Með uppsetningu á varmadælu og 50% sparnaði mundi aðilinn sem borgaði 238 þús. kr. í október 2010 spara 119 þús. kr. á ári.

Virðulegi forseti. Getur einhver bent mér á aðra eins kjarabót og sá íbúi dreifbýlissvæðis mundi fá við einhverja aðra aðgerð svona fljótt á litið? Kauphækkun? Nei, ég held nú ekki.

Þannig er dæmið um varmadælur sem hér er sett fram. Það er ótrúlegt hvað þær eru fáar á Íslandi, en eins og kom fram í flutningsræðu minni áðan er það vegna þess að svo stór hluti landsins býr við ódýrar og góðar hitaveitur. Þetta hefur ekki orðið valkostur og hann þarf ekki á þeim svæðum nema hjá þessum 8% íbúa á allra köldustu svæðunum. Þar mundi þetta skila sér mjög fljótt.

Það má alveg leika sér með fleiri tölur í þessu sambandi, virðulegi forseti. Það má taka 100 heimili. Þau borga 23,8 millj. kr. á ári, miðað við tölurnar sem gefnar eru frá þessum tíma. Ef þau spöruðu sér 50% eru það tæpar 12 millj. kr. sem mundu sparast á móti þeim kostnaði sem fylgir því auðvitað að setja upp dæluna.

Ég ætla ekki að taka dæmi af verði á einstökum dælum vegna þess að það er svolítið misjafnt eftir hvaða aðferð er notuð. En ef það næðist, eins og í dæminu sem ég hef tekið hér, að lækka húshitunarkostnað sem er 238 þús. kr. um 60% fer hann niður í húshitunarverð þeirra sem búa í sambærilegu húsnæði í Reykjavík þar sem það er lægst.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga. Ég hika ekki við að halda því fram að ef okkur tækist að vinna þetta mál í gegnum nefnd til Alþingis, eins og það var komið út úr nefnd á síðasta þingi, og við næðum að samþykkja það og mynda um það breiða samstöðu, er ég alveg viss um að fólk mundi kaupa fleiri varmadælur og setja upp. Reynslan af sparnaðinum sýnir að það yrði mjög hagkvæmt. Það er ríkisins að koma til móts við það og gefa eftir ímyndaðar tekjur af virðisaukaskatti og tollum af innflutningi á dælum sem annars koma ekki í ríkissjóð ef enginn kaupir þær. Þá heldur fólk áfram að borga þennan háa húshitunarkostnað og ríkissjóður að leggja til pening af fjárlögum til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði, sem hefur eins og ég hef getið um ekki hækkað í takt við það sem hér hefur komið fram.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson tók sem dæmi og fjallaði um það áðan og við vorum að hvíslast á um það, ég og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sem var varaformaður atvinnuveganefndar á síðasta kjörtímabili, að við í atvinnuveganefnd jukum niðurgreiðslurnar vegna nýrra hitaveitna úr átta árum í tólf ár, þ.e. styrkviðmiðið var lengt úr átta árum í tólf. Það var verk sem við unnum í atvinnuveganefnd. Við höfðum frumvarp um þessi lög og létum fylgja með að þetta tímabil var lengt.

Ég er alveg viss um það, virðulegi forseti, að þetta liðkaði mjög til t.d. fyrir lagningu hitaveitu til Skagastrandar. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi Hegranesið í Skagafirði líka. Ef það er rétt að þúsund íbúar hafi verið að njóta þessarar hitaveitu í framhaldi af því að niðurgreiðslur voru miðaðar við tólf ár í stað átta voru þær kannski forsenda fyrir lagningu á þeim. Þá getum við líka spurt okkur að því í leiðinni hvort það hafi ekki verið mjög þjóðhagslega arðbær og góð framkvæmd. Jú, ég er alveg sannfærður um það. Þar myndaðist allsherjarsamstaða í atvinnuveganefnd um að gera þessa breytingu á sínum tíma sem Alþingi svo samþykkti, allsherjarsamstaða eins og er um þetta frumvarp þar sem þingmenn úr öllum flokkum nema Pírötum eru flutningsmenn. Ég vitna aftur til þess sem gerðust í efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta ári þar sem málið var tekið út og var lagt fyrir þingið til 2. umr. en náðist ekki að klára út af þeirri ástæðu sem ég gat um hér áðan, en með góðum stuðningi þáverandi hæstv. fjármálaráðherra um að málið ætti að fá forgang, það væri réttlætismál og mikið jafnaðarmál.

Virðulegi forseti. Að mínu mati er þetta frumvarp og þessi aðgerð, ef okkur tækist að koma henni á og gera að lögum að ríkissjóður mundi gefa eftir virðisaukaskatt og tolla af varmadælum, mikið jafnréttismál. Mér er til efs að á þessu þingi séum við að gera einhverja aðra aðgerð sem mundi koma sér jafn vel fyrir þá sem búa við hæsta húshitunarkostnað á landinu. Þeir eru ekki svo margir, en eru kannski í kringum 25 þúsund talsins á svæði þar sem langdýrast er að hita upp húsnæði.

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mína til þeirra þingmanna sem hér hafa tjáð sig og lýst yfir stuðningi við frumvarpið. Ég el þá von í brjósti að efnahags- og viðskiptanefnd taki málið til umfjöllunar á ný og klári það og leggi fram fyrir þingið til 2. umr. og að allsherjarsamstaða geti myndast um það á hinu háa Alþingi að samþykkja þessa tillögu í þessari ferð núna og við þurfum ekki að endurflytja málið oftar.