143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég las grein eftir Söru Lind Guðbjartsdóttur í Morgunblaðinu í gær um bótasvindl og tjón okkar allra varðandi þau mál. Hún minnist þar á eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar sem tók til starfa árið 2009 þegar mikið var að gera. Talið er að það ár hafi deildin náð árangri við að endurinnheimta óréttmætar bætur upp á um það bil 700 millj. kr. og á árinu 2012 um það bil 573 millj. kr. þrátt fyrir mikið álag í deildinni og fáa starfsmenn. Þrátt fyrir allt þarf auðvitað að gæta þess hvað skorið er niður í stofnunum og ganga ekki það nærri að deildir sem fylgjast með bótasvindli séu skornar nánast alveg við trog.

Hún segir líka í greininni að við heildarendurskoðun á lögum um atvinnutryggingar og almannatryggingar ætti að skoða hvort það fari ekki saman að endurskoða lögin saman. Tryggingastofnun hefur á undanförnum árum líka náð verulega góðum árangri í að koma í veg fyrir að greiða út bætur sem ekki eiga rétt á sér. Stofnunin sjálf telur að það séu jafnvel 1–4 milljarðar.

Mig langar líka að ræða þessi mál varðandi lyfseðla, þar finnst mér að við séum með opna gátt fyrir neytendur og þá sem vísvitandi nota sér eymd fólks. Við þurfum að geta fengið upplýsingar úr kerfinu til að koma í veg fyrir að óvandað fólk fari til margra lækna á dag, sæki lyf og selji það svo á götunni sem fíkniefni fyrir neytendur.