143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að vekja máls á nýsköpun sem hefur svo sannarlega sett mark sitt á atvinnulíf og þróun hérlendis. Hér er ég að tala um Mjólkurvinnslustöðina Örnu í Bolungarvík sem fengið hefur frábærar móttökur um allt land. Þrátt fyrir að fyrirtækið sérhæfi sig helst í framleiðslu og vinnslu á vörum fyrir einstaklinga sem eiga erfitt með neyslu á venjulegum mjólkurvörum af einhverjum ástæðum, eins og til dæmis óþoli fyrir laktósa, hafa þessar vörur ekki hlotið minna hól frá hinum almenna neytanda.

Það er alltaf gleðilegt að sjá nýjungar á markaðnum sem skapa ákveðna breidd í úrvali. Að fara út í slíkt verkefni, sem er bæði dýrt og flókið, sýnir hverju brennandi hugsjón og hugrekki geta skilað. Sem dæmi er vinnsla á laktósafríum vörum hátt í 50% dýrari en á hinum hefðbundnu mjólkurvörum. Þessi framleiðsla hefur aukið enn á bjartsýni Vestfirðinga. Uppgangur í vestfirskri framleiðslu, rekstri og þjónustu og fleiru er mikil og ugglaust er það meginástæða þeirrar bjartsýni sem ríkir vestra. Það er ástæða til þess að vera bjartsýn því að það drífur fólk áfram og örvar samfélagið. Að miklu leyti er um að ræða nýsköpun. Þar er alls kyns ferðaþjónusta sem tengist til dæmis skíðum, norðurljósum, sjóferðum og svo má nefna þörunga- og saltvinnslu, framleiðslu á nýjum vörum sem snerta til dæmis veiðar, netmiðla og fleira, auk nýframkvæmda svo einhver dæmi séu nefnd.

En það er ekki nóg að Vestfirðingar standi eingöngu saman heldur verðum við öll að sýna ábyrgð og hjálpa til við uppgang nýrra fyrirtækja og tækifæra, samfélagið sem og ríkisvaldið. Ég tek þessi dæmi til að koma inn á meginpunkt máls míns; það verður að einfalda kerfið svo aðilar þurfi ekki að sækja um leyfi fyrir sama hlutnum til margra stofnana. Reglu- og leyfaumgjörð er flókin og hefur fælingarmátt fyrir minni fyrirtæki og hugmyndir sem þurfa tíma til að byggja sig upp en munu skila sínu eftir það. Það á ekki leggja gildrur fyrir aðila er huga að nýsköpun heldur þarf að halda utan um þá svo þeir geti framkvæmt því að við vitum að góðar hugmyndir koma samfélaginu til góðs.