143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna í þessu máli en nokkrar spurningar vakna þegar farið er yfir fjáraukalagafrumvarpið. Það fyrsta sem ég vildi nefna við hæstv. ráðherra er þetta: Þegar verið er að vinna og skila inn til þingsins fjárlagafrumvarpi, viðbótartillögum og breytingartillögum, fjáraukalagafrumvarpi, þá er vaninn að notast við nýjustu og bestu upplýsingar. Í þessu fjáraukalagafrumvarpi er miðað við upplýsingar frá 28. júní sl., þ.e. þjóðhagsspá Hagstofunnar, en kosið að nota ekki þá nýjustu sem kom út 15. nóvember sl. Ég veit að sköruglegir starfsmenn fjármálaráðuneytisins hefðu ekki verið í neinum vandræðum með að uppfæra fjárlagafrumvarpið samkvæmt nýjustu tölum ef lögð hefði verið á það áhersla.

Þar kemur fram að hækkun er á hagvaxtarspánni úr 1,7% í 2% þannig að þeir 11,6 milljarðar sem gert er ráð fyrir í veikingu á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins ætti að verða eitthvað lægri upphæð. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um þetta og það hlýtur að vera fagnaðarefni að hækkun sé á þessum hluta í nýrri þjóðhagsspá. Það er mikilvægt að halda þessu til haga hér í umræðunni.

Ég hef líka velt því fyrir mér hvort menn séu svo áfram um að sýna fram á að forsætisráðherra hafi haft rétt fyrir sér, þegar hann talaði um 30 milljarða gat í vor, að allt sé tínt til. Í umræðum og réttlætingu, t.d. hæstv. menntamálaráðherra síðustu daga, á niðurskurði til Ríkisútvarpsins, er þessi tala alltaf notuð og þá er ekki gert ráð fyrir jákvæðari niðurstöðu hvað varðar vaxtakostnað ríkisins og ekki notast við nýjustu þjóðhagsspá Hagstofunnar.