143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að við undirbúning að gerð þessa fjáraukalagafrumvarps, sem hefur staðið yfir í nokkra mánuði, er byggt á þeim forsendum sem þingmaðurinn vísaði til frá því í sumar. Nýjasta spáin sýnir örlítið meiri hagvöxt á yfirstandandi ári og er fullt tilefni til þess að litið verði til þess í vinnu nefndarinnar að hvaða marki það kann að hafa einhver áhrif á tekjur ríkisins á yfirstandandi ári. Ég hygg að þau áhrif, ef einhver eru, verði þá jákvæð eins og hv. þingmaður kemur inn á, en það mun ekki skipta sköpum um meginniðurstöðu frumvarpsins.

Varðandi hallann á árinu er í frumvarpinu lagt til að á útgjaldahliðinni verði heimildirnar lægri en lagt var upp með í fjárlögum, einkum vegna þess að við erum að leggja til að dregið verði úr ýmsum útgjaldaáformum á yfirstandandi ári til þess að lágmarka áhrifin á ríkissjóð. Ég nefni sérstaklega í því sambandi fjárfestingaráætlunina og eins og ég gat um í máli mínu er dregið úr útgjaldaáformum vegna hennar um um það bil 4 milljarða. Væri ríkisstjórnin í einhverjum sérstökum leiðangri til að láta ríkisfjármálin líta illa út hefðum við látið þetta ógert og hefðum bara bætt þessum 4 milljörðum við halla ársins. Það hefði eflaust líka verið til vinsælda fallið vegna þess að nógar hafa árásirnar verið frá stjórnarandstöðunni fyrir að hafa einmitt gert þetta, en það gerum við til þess að takmarka lántökur á yfirstandandi ári og til þess að draga úr hallarekstrinum.