143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessari ríkisstjórn er tíðrætt um einhvern misskilning. Það er nú bara hægt að fara á fyrstu síðu athugasemda við þetta lagafrumvarp og sjá að þar segir, með leyfi forseta:

„… og þar með 21,8 milljarða kr. lakari en gert var ráð fyrir í gildandi fjárlögum.“ Þá er átt við heildarjöfnuðinn.

Það kemur líka fram að þar gæti áhrifa af þessum tæplega 7 milljarða kr. bata í vaxtajöfnuði. Þetta stendur því hérna, þetta eru tölurnar sem við erum að tala um. Þegar hæstv. ráðherra stendur hér og talar um 31 milljarð — það er þess vegna sem ég segi að verið sé að afvegaleiða umræðuna. Það eru fjölmargir þættir sem er óvissa um og menn þurfa að taka þá alla saman. Ég ætla ekki að standa hér og karpa við hæstv. ráðherra um það vegna þess að þetta er lítið mál, það er miklu, miklu minna mál en heildarmálið. Ég hefði viljað að hann hefði komið hingað upp og svarað spurningum mínum um stóru spurningarnar þar sem ég spurði hann um óvissuna í efnahagslífinu og um hrópandi fjarveru hans í umræðu um niðurfærslu skulda heimilanna og hvernig eigi að fjármagna þær. Sú óvissa sem það skapar er sú lamandi hönd sem hvílir á íslensku efnahagslífi, það er sú lamandi hönd sem heldur niðri hagvextinum. Það eru engin ósanninndi af hálfu vondrar stjórnarandstöðu. Það kemur fram í áliti eftir áliti, innlendum sem erlendum, það eru allir sammála um.

Virðulegur forseti. Það er hlutverk hæstv. fjármálaráðherra að stíga fram og eyða þeirri óvissu með því að segja okkur hvernig á að fara að því að fjármagna skuldaleiðréttingar, hvernig á að fara með gjaldmiðilsmálin inn í framtíðina og hver peningastefnan á að vera. Þannig verður óvissunni aflétt.