143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi upplýsingagjöf um stöðuna í ríkisfjármálum. Staðreynd málsins er nefnilega sú að ég deili þeirri skoðun ráðherrans að opinberar upplýsingar, um það hver staðan er og hvernig afkoman er að þróast yfir árið, geta verið mjög ruglingslegar vegna þess að svo virðist sem miðað sé við mismunandi forsendur. Þetta gildir til dæmis um tölur sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér fyrir ekki löngu og upplýsingar, um það hvernig tekjuafkoma ríkisins er að þróast yfir árið, hafa líka verið misvísandi, vegna þess að til grundvallar umræðunni hér í þinginu erum við vön að nota rekstrargrunn, en afkomutölur fyrir einstaka mánuði á tekjuhliðinni eru oft miðaðar við það hvernig tekjur hafa verið brotnar niður á einstaka mánuði. Í þessu samhengi er til þess að líta að í nýlega birtum tölum voru arðgreiðslur sagðar vera langt yfir áætlun en í áætluninni hafði verið gert ráð fyrir því að arðgreiðslurnar kæmu allar í síðasta mánuði ársins. Það var því ekki nema von að arðgreiðslurnar væru yfir áætlun vegna þess að sérhver króna var þá umfram áætlun fram eftir árinu. Ég hef óskað eftir því að sérstaklega verði horft til þessa við birtingu opinberra gagna um þessi mál í framtíðinni.

Varðandi fjármögnun fjárfestingaráætlunar og einstök verkefni vil ég bara ítreka það sem ég hef áður sagt í dag að sjóðirnir sem hér eru nefndir til sögunnar, eins og Tækniþróunarsjóður og Rannsóknasjóður, eru með mestu umsvif nokkru sinni á þessu ári og í frumvarpinu er ekki verið að slá allt það af þeim sem þeir hafa enn óúthlutað. En sé það svo að það sé óframkvæmanlegt að gera þetta, vegna þess hve langt menn eru komnir, verður það væntanlega skoðað í nefndinni. En umsvifin eru engu að síður þau mestu í sögunni. (Forseti hringir.) Svo kalla ég eftir því að menn ræði um það af einhverri alvöru að við erum að reka ríkið með 31 milljarðs kr. halla sem endurspeglast auðvitað í ýmsum tillögum frumvarpsins.