143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi fyrirhugaða 2. umr. fjárlaga þriðjudaginn 3. desember þá finnst mér orðið harla ólíklegt að okkur takist að koma saman í samstarfi við nefndina öllum tillögum til að undirbúa þá umræðu og rísa um leið undir því sem er mikilvægt, að nefndin öll fái hæfilegt tækifæri til að yfirfara þær. Það er augljóst af því hvar við erum stödd á dagatalinu í dag.

Varðandi fjárlagafrumvarpið og samspil þess við fjáraukalagafrumvarpið þá sætti ég gagnrýni fyrir nokkrum dögum fyrir að hafa ekki fyrr komið fram með fjáraukann sem er sannarlega mjög seint á ferðinni að þessu sinni, því miður. Ég tel hins vegar að það komi á engan hátt í veg fyrir að áfram haldi vinnan við fjárlögin og undirbúning fyrir 2. umr. vegna næsta árs. Ekkert af því sem við erum að afgreiða í fjáraukanum í þessari umræðu og framhaldi hennar hefur bein áhrif með þeim hætti sem hv. þingmaður kemur inn á. Það er ekkert að fara að gerast vegna ársins 2013 sem smitast yfir á árið 2014 í tengslum við einhverjar niðurstöður þeirra nefnda sem eru að fara að skila af sér. Það er nokkuð sem mun gerast næstu daga, vonandi skila nefndirnar af sér fyrir helgi og jafnvel þannig að hægt verði að kynna þær niðurstöður sérstaklega. Ég á ekki von á öðru en að það muni fyrst og fremst hafa möguleg áhrif á árið 2014. Ég sé ekki fyrir mér að það geti mögulega haft nein árið á fjárlög 2013.