143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Formaður og varaformaður fjárlaganefndar eru samkvæmt minni bestu vitund báðir erlendis vegna þingstarfa.

Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir að koma fram með hallarekstursvandann og hvernig best sé að taka á honum. Ég get greint frá því að ég sé það gerast þannig varðandi hallarekstur þeirra sem eru með gamlan, uppsafnaðan vanda en hafa sýnt umbætur í rekstrinum á undanförnum árum að við getum í lokafjárlögum þurrkað út verulegan hluta þess vanda. Ég er hér í því samhengi fyrst og fremst að horfa til þriggja aðila. Í fyrsta lagi Landspítalans, í öðru lagi Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, í þriðja lagi lögregluembættisins á Suðurnesjum. Þetta eru allt stofnanir í ríkisrekstrinum sem voru fyrir nokkrum árum síðan í miklum vanda en hafa í millitíðinni sýnt mikinn rekstrarbata.

Til þess að sýna ekki slæmt fordæmi gagnvart einstaka stofnunum og taka jafnóðum af hallarekstur, sem er auðvitað ekkert annað en umframkeyrsla miðað við fjárheimildir, höfum við í fjármálaráðuneytinu undirbúið verklagsreglur fyrir þetta ferli og ég hef kynnt í ríkisstjórn ákveðnar viðmiðunarreglur sem ég hyggst leggja slíkum ákvörðunum til grundvallar. Samkvæmt þeim skilmálum eða skilyrðum sem mér finnst rétt að byrja þessa vinnu eftir, eru það fyrst og fremst þessir þrír aðilar sem mundu koma fram í lokafjárlögum og við mundum taka 3/4 af eldri halla þeirra í þessari lotu. Annar hallarekstur annars staðar í kerfinu verður áfram til meðhöndlunar. Hér var Vegagerðin nefnd sérstaklega. Í þessu fjáraukalagafrumvarpi eru settar 700 milljónir vegna (Forseti hringir.) rekstrarkostnaðar sem Vegagerðin hefur orðið fyrir út af snjómokstri.