143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:53]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra tekur undir þá grundvallarnálgun að í sjálfu sér er ekkert fjármagnað. Við skulum þá hætta að tala um að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar hafi ekki verið fjármögnuð eitthvað sérstaklega. Þetta er bara spurning um pólitíska forgangsröðun og hvað við viljum gera við takmarkaða fjármuni ríkisins. Sú staða er 7,7 milljörðum kr. verri vegna ákvarðana sem hafa verið teknar hér inni á upphafsmánuðum ríkisstjórnarinnar samkvæmt greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi. 7,7 milljarðar kr. af tekjum eru farnir. Það stendur einfaldlega í greinargerðinni og við höfum fylgst með því í þessum sal.

Vissulega hefði þurft að laga ýmislegt varðandi veiðigjaldið, ég er sammála því, en ég held samt að það hefði verið hægt að ná í sömu tekjur með öðrum aðferðum en lagt var upp með. Ég held að það hefði verið hægt að halda þessum tekjum, en gott og vel.

Ég sagði líka í ræðunni að það hefði örugglega þurft að endurskoða margt í fjárfestingaráætluninni. Ég tek undir þær áherslur í máli hæstv. ráðherra. Ég hef minni áhuga á húsbyggingum en samkeppnissjóðunum og uppbyggingu skapandi greina, tækni- hugverkaiðnaðarins og græns iðnaðar og ferðamannaþjónustu. Ég vil frekar horfa þangað og ég fagna því að ráðherrann virðist deila með mér þeim áherslum. En af hverju er þetta svo að segja allt tekið burt?

Sóknin. Vissulega er fjármunum enn þá varið til þessara málaflokka en það var ákveðið að blása til sóknar. Hæstv. ráðherra er sammála því að þarna séu sóknarfæri. Af hverju á ekki að ráðast í þau? Ástæðan fyrir fjárfestingaráætluninni var einmitt sú að menn höfðu verið sammála allt of lengi í ræðustól um að þetta væri skynsamlegt en þeir gerðu ekki neitt. Hvenær ætlar hæstv. ráðherra að standa fyrir því að eitthvað verði gert? Er það sannfærandi fyrsta skref að hætta við að leggja peninga í þessa málaflokka? Þetta er spurning um að skapa tekjur.

Svo vil ég spyrja ráðherrann: Er bankaskattur á þrotabú tekjur sem koma í staðinn fyrir þessar tekjur? (Forseti hringir.) Eru það tekjur til framtíðar? Hversu lengi getur sá tekjustofn varað?