143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

tollalög og vörugjald.

179. mál
[15:15]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ákvað að kveðja mér hljóðs í þessu máli. Mér finnst þetta afar gott mál, og það sem mér datt fyrst í hug, þegar ég sá alla þessa tolla- og vörugjaldaflokka, var hve kerfið okkar væri eiginlega flókið, það var það fyrsta sem mér datt í hug, ef öll þessi númer eru undir.

Það er alveg rétt að það er líka orðin miklu meiri vitundarvakning um að eitthvað geti verið að, eitthvert óþol eða ofnæmi eða eitthvað slíkt, og hefur kannski færst í aukana vegna þess að við höfum fengið greiningu á því fyrr ef um slíkt er að ræða. Hér áður fyrr var það kannski mun minna og þar af leiðandi ekki eins algengt. Nú sjáum við vörur, bæði hvað varðar mjólk — og ég mundi helst vilja ganga lengra, margir eru með glútenofnæmi og margs konar óþol og flestar þessar vörur, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, eru miklum mun dýrari. Það er kannski frekar ólánlegt að vera að refsa fólk, eins og hún sagði, fyrir það að vera kannski ekki fært um, það er ekki einu sinni val, að neyta tiltekinna vara.

Ég held því að það sé hárrétt að þetta er réttlætismál og ætti að vera auðsótt í gegnum þingið. Það kom ekki fram í máli hv. þingmanns hvað þetta þýddi í krónum og aurum fyrir ríkissjóð, það hefði nú verið áhugavert að vita það og kannski kemur það fram í nefndarvinnunni. Það snýst á endanum svolítið mikið um það, en það er kannski okkar að láta þetta snúast um það sem það raunverulega er, þ.e. rétt fólks til að geta neytt vara á samkeppnishæfu verði, það sem við þurfum að neyta dagsdaglega.

Ég ætlaði að lýsa ánægju minni með þetta mál, ég hefði gjarnan viljað ganga lengra með fleiri vörur og kannski verður það bara næst á dagskrá.