143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

fjármagn til skuldaleiðréttinga.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og rætt hefur verið alllengi og allítarlega er ekki hægt að leggja að jöfnu hið svokallaða svigrúm sem óhjákvæmilega þarf að myndast vegna skuldaskila fallinna fjármálafyrirtækja, þ.e. uppgjörs hrunsins, þess sem eftir er af því, og svo fjármagn sem varið er í kaup á hlutum, ég tala nú ekki um innfluttan varning, eða önnur bein útgjöld ríkisins. Ástæðan er sú að hið margumrædda svigrúm þarf að myndast vegna þess að of mikið fjármagn er í umferð, þ.e. það þarf að draga úr heildarumfangi fjármagns í umferð til að hægt sé að aflétta gjaldeyrishöftum og koma hér á eðlilegri stöðu í efnahagslífinu. Eins og fjármálakerfi okkar og raunar Vesturlanda allra virkar er önnur hlið fjármagns skuldir og hin er eignir. Þegar verið er að hleypa loftinu úr eignabólunni er eðlilegt að hleypa um leið loftinu úr skuldabólunni, þ.e. allt snýst þetta um að taka úr umferð fjármagn sem ekki var innstæða fyrir. Slíkt fjármagn er ekki hægt að nota til þess að kaupa vörur og þjónustu.