143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

hækkanir ýmissa gjalda ríkisins.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég minnist þess ekki að hafa gagnrýnt sveitarfélögin sérstaklega fyrir þessar áformuðu hækkanir. Hins vegar taldi ég þær óráðlegar þannig að ég hugsaði gagnrýnina sem hv. þingmaður vísar til. Ef til vill hefur hv. þingmaður lesið þær hugsanir. Það er alveg rétt, ég taldi þetta óæskilegt og sem betur fer hafa sveitarfélögin sem um ræðir séð að sér hvað það varðar.

Hvað varðar hins vegar fjárlögin ítreka ég það sem ég sagði áðan, sem virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá hv. þingmanni, að heildaráhrif fjárlaganna, einhverjar verðlagshækkanir sums staðar til að fylgja verðlagsþróun, annars staðar lækkanir, eru jákvæð, heildaráhrifin auka kaupmátt. Þetta er munurinn á því sem ríkisstjórnin er að gera og sum sveitarfélög og raunar munurinn á því sem núverandi ríkisstjórn er að gera og sú sem starfaði hér síðast. Ég hef ekki orðið var við það að stjórnarandstaðan hafi kvartað mikið undan þeim skattalækkunum sem ríkisstjórnin hefur boðað til þessa, þvert á móti hefur verið talað um að við værum að gefa peninga, ríkisstjórnin væri að gefa peninga með því að nýta ekki allar skattahækkanir til fulls. Þetta er ánægjuleg breyting, virðulegi forseti.