143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

málefni heilsugæslunnar.

[10:43]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við lestur fjáraukalaganna vakna ýmsar spurningar. Meðal annars langar mig að ræða hér um samning sem Akureyrarbær hefur gert við velferðarráðuneytið um rekstur heilsugæslunnar þar en sá samningur gerir bæjarfélaginu kleift að samþætta aðra þjónustu við heilsugæsluna og ná með því fram hagræðingu sem væri kannski ekki hægt annars.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þessum málum sé eins háttað hjá heilsugæslunni í Reykjavík. Ef svo er ekki, hver er þá munurinn á rekstrarformi og rekstrarlíkani þessara tveggja heilsugæslustöðva?

Það kom líka fram í máli fjármálaráðherra hér í gær, í umræðum um fjáraukalagafrumvarpið, að ætlunin væri að fella niður 3/4 af uppsöfnuðum halla heilsugæslunnar í Reykjavík. Því spyr ég hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að sambærilegur halli verði felldur niður hjá heilsugæslunni á Akureyri og í rauninni líka Sjúkrahúsinu á Akureyri, samanber Landspítalann, sem kom líka fram í máli hæstv. fjármálaráðherra hér í gær. Ég tel að norðanmenn hafi verið ákaflega hógværir og sýnt mikinn skilning á erfiðleikum ríkissjóðs og ekki verið að ámálga þessa möguleika fyrr en núna þegar unnt verður að gera eitthvað samkvæmt þessu. Það sama ætti kannski að ganga yfir þessar stofnanir, sérstaklega í ljósi forustuhlutverks Akureyrarbæjar.

Þessar áhyggjur komu akkúrat fram á fundum með þingmönnum kjördæmisins og fjárlaganefndar, að bæjarfélagið sæi sér ekki lengur fært að reka þessa þjónustu og hygðist jafnvel skila henni til baka til ríkisins. Því spyr ég: Hvernig ætlar ráðherra að bregðast við þessum áhyggjum bæjarfélagsins þar sem ekki virðist vera komið til móts við það í fjáraukalögunum?