143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

málefni heilsugæslunnar.

[10:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er alveg rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að það er halli á þeim samningi sem um ræðir við heilsugæsluna á Akureyri. Það er einnig rétt að það er mikill halli á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Það skal upplýst hér að fyrstu níu mánuði ársins er hallarekstur í heilbrigðisútgjöldunum um 4,5 milljarðar á árinu 2013. Það er einkennileg staðreynd í ljósi fullyrðinga stjórnarandstæðinga í þessum sal um að enginn niðurskurður hafi átti sér stað í fjárlögum ársins 2013 til heilbrigðisþjónustu í landinu.

Það er vandasamt að taka á þeim samningum sem sveitarfélögin eru með varðandi heilsugæsluna, sérstaklega á Höfn og Akureyri. Þeir tveir samningar sem um ræðir eru þjónustusamningar og samkvæmt því jafnlaunaátaki sem tilkynnt var í vor þá gekk það ekki yfir þessa samninga vegna samningssambandsins. Munurinn á þessu tvennu og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er sá að hún er rekin af ríkinu og þá gilda önnur lög og aðrar reglur um fjármögnun þeirrar starfsemi. Sveitarfélögin taka þetta að sér.

Eins og hv. þingmaður nefndi komu fulltrúar Akureyrarbæjar til okkar þingmanna í kjördæmavikunni. Þar var upplýst að þessi samningur var jákvæður á tímabilinu 1998–2009 en síðan hefur sigið á ógæfuhliðina. Það er vandasamt að vinna úr þessu. Ég geri ráð fyrir því að við þurfum að leggjast fast á árarnar til að taka þá þætti sem ekki fara inn í fjáraukalögin og út af standa með í fjárlagagerð ársins 2014.