143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart RÚV.

[10:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin.

Hæstv. ráðherra vitnar í það að framsóknarmenn hefðu stofnað Ríkisútvarpið 1930. Gott og vel. Verður það þá hlutverk Framsóknarflokksins að leggja Ríkisútvarpið niður með þessum aðgerðum? Hvert stefnir? Erum við ekki að fara inn á þá braut að verið er að brjóta niður stoðir Ríkisútvarpsins, þær stoðir, eins og Rás 1, sem byggja á menningarlegu hlutverki okkar, skyldum gagnvart arfleifð landsins og að þjóna öllum landsmönnum?

Við erum að skera niður til dæmis það sem snýr að barnamenningu, framleiðslu dagskrár á Rás 1 þar sem börn koma að dagskrá og svona mætti áfram telja. Ríkisútvarpið hefur miklu lýðræðislegu hlutverki að gegna til að veita stjórnmálamönnum aðhald, en skera á niður fréttatíma og draga saman.

Hvað sagði í rannsóknarskýrslu Alþingis? Að Ríkisútvarpið væri einn sá grundvallarþáttur í lýðræðislegu samfélagi sem ætti að upplýsa og veita stjórnmálamönnum hverju sinni aðhald. Er verið að draga úr því aðhaldi?