143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

seinkun klukkunnar og bjartari morgnar.

197. mál
[11:05]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég afsaka hvað ég er seinn í ræðustól. Það er engu líkara en búið sé að breyta klukkunni.

(Forseti (ÞorS): Akkúrat.)

Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um seinkun klukkunnar og bjartari morgna.

Þessi tillaga er ekki út í loftið út af því að við höfum áhuga á því að hafa klukkuna öðruvísi. Þetta er lýðheilsumál og snýst í stuttu máli um að á Íslandi er úrið sem við höfum á handleggnum á okkur, og eftir atvikum klukkan á veggnum, ekki í samræmi við gang sólar, sólarklukkuna. Það lýsir sér best í því að þegar sólin er hæst á lofti, við köllum það hádegi, sýnir úrið á handleggnum á okkur hér í Reykjavík að klukkan sé hálftvö. Við erum því á undan sólinni.

Nýlegar lífeðlisfræðilegar rannsóknir sýna að svona skekkja getur haft veruleg áhrif á fólk. Þetta þýðir fyrir okkur Íslendinga að við vöknum drjúgan hluta úr ári í allt of miklu myrkri á meðan líkamanum er eðlislægt að vakna við birtu. Það er ýmislegt í líkamanum, í hormónabreytingum í líkamanum sem stillir sig af eftir sólarklukkunni.

Í morgun klukkan tíu var farið að birta í Reykjavík. Ef þessi tillaga næði fram að ganga yrði farið að birta klukkan níu. Það mundi þýða að við værum komin á ról og værum að koma til starfa á skrifstofum okkar, eins og við gerum, í dagsbirtu. Allar rannsóknir sýna að það að hefja daginn á birtu hefur einfaldlega veruleg áhrif á sálarlíf okkar. Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort skekkjan í tímasetningu eða klukkunni á Íslandi geri það að verkum að við Íslendingar erum mjög miklir neytendur þunglyndislyfja, svo dæmi sé tekið. Það má líka velta fyrir sér hvort lág framleiðni á vinnumarkaði — við vinnum mikið en komum í raun og veru miklu minna í verk miðað við fjölda vinnustunda en nágrannaþjóðir okkar — sé að hluta til sprottin af því að við fáum lélegan svefn.

Ég veit að þetta kunna að virðast djarfar ályktanir fyrir sumum, en ég er í rauninni bara að velta þessu upp. Þetta eru staðreyndir sem tala sínu máli og eiga einhverjar orsakir. Rannsóknir sýna að það að hafa klukkuna ranga leiðir í raun og veru til þess að ástand heillar þjóðar, plús/mínus, verður eins og hún sé endalaust að koma úr löngu þotuflugi. Það lýsir sér mjög svipað og misræmið sem skapast eftir að maður kemur til dæmis frá Bandaríkjunum eftir langt þotuflug og þarf að venjast nýjum tíma, að búa við ranga klukku lýsir sér á svipaðan hátt.

Í raun og veru erum við að vakna þegar við erum líkamlega ekki búin með svefninn. Hins vegar förum við yfirleitt að sofa algjörlega óháð gangi sólar. Við förum því seint að sofa en vöknum áður en dagur hefst af því að klukkan er röng. Rannsóknir sýna að það hefur einstaklega slæm áhrif á unglinga sem þurfa meiri svefn og betri svefn. Við látum unglingana okkar í raun vakna um miðja nótt í fullkomnu myrkri.

Ég held að alveg sé hægt að halda því fram að við getum séð það á unglingunum okkar. Ef maður rifjar upp hvernig maður var sjálfur sem unglingur í skóla finnst mér alveg merkilegt að maður hafi einfaldlega komist í gegnum skólann miðað við hversu slepjulegur og þreyttur maður var lungann úr skólagöngunni. Margt bendir til að því valdi einfaldlega röng klukka.

Við vitum að málið er umdeilt vegna þess að það eru önnur sjónarmið, það eru líka þeir sem vilja meiri birtu síðdegis. Til dæmis búa sum sveitarfélög við það á Íslandi að fjöllin eru þannig að sólin sest snemma. Þetta eru sveitarfélög eins og til að mynda Siglufjörður og Seyðisfjörður. Ég hef fengið hávær mótmæli frá þeim sveitarfélögum gegn tillögunni vegna þess að ef hún nær fram að ganga mun sólin setjast fyrr þar.

Hér verðum við að vega og meta hagsmuni. Þeir sem fara í golf á veturna eða vilja grilla síðdegis í birtu eru hugsanlega ekki sáttir, þeir vilja meiri birtu síðdegis. Þau sjónarmið verður að vega og meta með tilliti til hinna sjónarmiðanna sem eru lýðheilsusjónarmiðin. Engar lýðheilsurannsóknir sýna að birta síðdegis sé mikilvæg fyrir líkamsklukkuna og líkamsstarfsemina. Lýðheilsurannsóknirnar, lífefnafræðilegu rannsóknirnar, rannsóknirnar á efnaskiptum í líkamanum sýna hins vegar að morgunbirtan er gríðarlega mikilvæg. Líkamanum er eðlislægt að vakna við birtu.

Þessi tillaga mundi vissulega ekki leiða til þess að allir morgnar yrðu bjartir. Morgnarnir í desember yrðu eftir sem áður myrkir. Hins vegar mundi björtum morgnum fjölga umtalsvert og lýðheilsumarkmiðunum þar með náð upp að því marki. Við tillöguflytjendur skjótum ekki loku fyrir að hugsanlega gæti verið skynsamlegt til þess að mæta sjónarmiðum þeirra sem vilja meiri sól síðdegis að hafa, eins og margar þjóðir, sumartíma og vetrartíma og að hafa þá sumartíma yfir vormánuðina, sumarmánuðina og haustmánuðina til þess að hafa meiri birtu síðdegis til tómstunda og annars, enda eru morgnarnir þá bjartir, en taka síðan upp vetrartíma þegar tekur að dimma.

Við teljum þetta vera mjög mikið lýðheilsumál. Það eru veigamiklar röksemdir fyrir því. Málið er vafalítið umdeilt, en við verðum að geta tekist á við svona mál. Þetta er ekki lítið mál og ég held að Íslendingar mundu sjá muninn ef þeir færu að vakna í dagsbirtu í lok nóvember. Ég held að þá yrði betra að búa á Íslandi.