143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

seinkun klukkunnar og bjartari morgnar.

197. mál
[11:22]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ekki kunnugt um hvaða áhrif þetta mundi hafa sérstaklega á svefn ungabarna. Svefnvenjur ungabarna eru afskaplega ólíkar. Ég á tvö börn sem blessunarlega hafa alltaf sofið út meira eða minna sem hentar mér og mínum lífsstíl ágætlega og hefur gert. Önnur ungabörn vaka allar nætur og ég þekki foreldra sem safna baugum vegna þessa. Ég veit svo sem ekki hvaða áhrif þetta hefur á það. En hins vegar hafa verið könnuð mjög áhrifin á eldri börn og unglinga og það að klukkan sé röng og unglingar og eldri börn nái ekki að klára svefn sinn virðist hafa mjög merkjanleg áhrif.

Ég fór á málþing fyrir um tveimur árum í Háskóla Íslands um þessi mál, þessa skekkju, og hvenær við förum að sofa á kvöldin. Það var gerð samanburðarrannsókn á okkur og öðrum þjóðfélögum í nágrannalöndum. Ég kann ekki að fara með niðurstöður þessara rannsókna í smáatriðum en í stuttu máli var niðurstaðan sú að við fáum minni svefn, sofum minna. Vegna þess að klukkan er röng förum við seinna að sofa miðað við gang sólar en við ættum að gera og vöknum fyrr, vöknum áður en við erum búin með svefninn þannig að við fáum minni svefn. Getur það verið ástæðan fyrir því að við eigum erfitt með svefn og neytum svona mikið svefnlyfja? Ég veit það ekki.