143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

seinkun klukkunnar og bjartari morgnar.

197. mál
[11:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er mjög áhugavert mál og þarft sem ég styð heils hugar. Það eru greinilega margir hagsmunir undir. Þetta mál hefur oft verið flutt á Alþingi áður en aldrei náð í gegn þannig að það eru greinilega sterkir hagsmunir gegn því að fá þessa breytingu til baka.

Mig langar að leggja þau orð í belg að það er einkennilegt ef við hugsum út í það að ríkið, hið opinbera, valdhafar, ákveði hvað klukkan er. Það er mjög áhugavert í sjálfu sér. (Gripið fram í.) Það er svona eins og þegar valdhafar í Sovétríkjunum ákváðu á sínum tíma að í dag væri ekki svona kalt, það væri heitara. Þeir gáfu út yfirlýsingar í aðaltímariti Sovétríkjanna, Pravda, Sannleikanum. Sannleikurinn var að það væri heitara en raunverulega var. Það var til þess að fólk kynti ekki jafn mikið þann daginn.

Það er mjög einkennilegt þegar valdhafar taka ákvarðanir sem ná yfir hið náttúrulega ferli, í þessu tilfelli klukkuna. Við skulum skoða það í því samhengi en ég hlakka til að fylgjast með þessu máli, sjá hvernig það þróast hérna og að við fáum að sjá hvaða hagsmunir liggja að baki því að stöðva þessa náttúrulegu þróun, að við færum okkur aftur á eðlilegan sóltíma, a.m.k. þegar kemur að vetrarmánuðunum.