143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

seinkun klukkunnar og bjartari morgnar.

197. mál
[11:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar upplýsingar. Þetta sýnir gagnsemi skoðanaskipta, við erum alltaf að læra og uppfræða hvert annað. Ég mundi ekki nákvæmlega um hvað þessi umræða í Frakklandi snerist en ég mundi að hún tengdist einhverju frá Evrópusambandinu og það hafa þá væntanlega verið þessi tilmæli. Ég geri nú ráð fyrir því að það sé rétt að Evrópusambandið hafi ekki lögsögu og dómsvald í því hvernig hvert land fyrir sig innan Evrópu hefur klukkuna en það er skiljanlegt ef klukkunni verður breytt að menn vilji að það sé þá gert á sama tíma til verulegs hagræðis fyrir alla. Reyndar er alltaf ákveðið fát í kringum breytinguna, það eru árlegar uppákomur að menn gleyma því að klukkan breytist og missa af flugvélum eða öfugt, mæta klukkutíma of snemma eða eitthvað þannig. En það er bara eins og það er.

Að lokum er þetta tiltölulega einfalt; Ísland er bara þar sem það er á hnettinum og við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að landið verður ekki fært til. Það er að vísu gömul þjóðsaga í Færeyjum um að einu sinni átti að reyna að draga Færeyjar til Íslands. Tvö tröll fóru í það verkefni en það endaði illa. Þau urðu náttþrota og dagaði uppi þegar sólin kom og eru klettar norðan við Færeyjar. Eru Færeyjar þess vegna enn á sama stað. Sú tilraun mislukkaðist að draga þær til á hnettinum.

Mér finnst stundum næstum því eins og mönnum finnist að þeir geti eitthvað fært Ísland til með þessu og á ég þá alls ekki við þessa tillögu. Það er ekki það sem gerist. Þetta er bara spurningin um hvernig við stillum best klukkuna. Ég held að ég hafi nú í aðalatriðum sagt allt sem ég þarf að segja um afstöðu mína. Ég tek það fram að þó að ég hafi talað í gamansömum eða galgopalegum tón um málið á köflum þá tek ég það alvarlega. Það er síður en svo að mér finnist þetta léttvægt, ég tel að þetta sé í sjálfu sér býsna stórt mál. Ef við værum í alvöru að velta því fyrir okkur að stíga þetta skref þá er það býsna stórt mál.