143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

seinkun klukkunnar og bjartari morgnar.

197. mál
[11:48]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil bara koma hingað upp í lokin og þakka kærlega fyrir mjög áhugaverða umræðu. Mér finnst þessi umræða sýna að það er full þörf á henni.

Kveikjan að því að ég og við í Bjartri framtíð lögðum þessa þingsályktunartillögu fram — ég hef lagt þetta mál fram einu sinni áður ásamt hópi þingmanna úr öllum flokkum að mig minnir, á síðasta kjörtímabili, en það fékkst ekki rætt þá — er langt samtal sem ég átti við geðlækni sem heitir Þórgunnur Ársælsdóttir. Hún hefur ásamt mörgum geðlæknum og öðrum fagaðilum hér á landi og annars staðar vakið máls á þessu. Hún sannfærði mig algjörlega um þetta í litlu kaffispjalli og sýndi mér rannsóknir. Svo fór ég á málþing um málið og hef verið að lesa mér til um það. Hún sýndi mér fram á að það að breyta klukkunni þannig að björtum morgnum fjölgi hefur líffræðileg áhrif á okkur og það að við gerum það ekki getur verið orsök margra vandamála sem við glímum við eins og ég nefndi í upphafsræðu minni. Það er þetta sem við erum að tala um.

Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að það hversu norðarlega við erum á jörðinni gerir auðvitað að verkum að klukkubreytingar hafa aðeins minna vægi. Það er til dæmis spurning hvort það hafi nokkra þýðingu að hafa sérstakan sumartíma yfir sumarmánuðina á Íslandi þegar það er hvort sem er bjart allan sólarhringinn. Við ákváðum sem sagt að hafa samt endalausan sumartíma á Íslandi sem þýddi það að við fækkuðum björtum morgnum. Vísindin sýna að það var röng ákvörðun. Þó svo að við mundum aldrei gera alla morgna bjarta út af stöðu okkar á jarðhvelinu með því að seinka klukkunni þá mundum við samt fjölga þeim. Það er það sem nefndin þarf núna í yfirferð sinni að vega og meta. Hefur það svo mikil áhrif á lýðheilsu á Íslandi að fjölga björtum morgnum að við eigum að gera það?

Ég vil líka taka það skýrt fram að þegar ég tala um sólargang þá felst auðvitað ekki í því að ég hafni sólmiðjukenningunni. [Hlátur í þingsal.] Ég er eindreginn stuðningsmaður hennar. Hins vegar er þetta viðtekin málvenja sem er á athyglisverðan hátt röng. Við ættum auðvitað að tala um jarðargang eða jafnvel jarðgöng eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir stakk upp á við mig hér áðan.

Viðskiptalegu sjónarmiðin eru einhver en þau verður að vega og meta á móti lýðheilsusjónarmiðunum sem ég talaði um. Ég hef það svolítið á tilfinningunni að þegar mælt var hve mest fyrir því að flýta klukkunni til að við værum með sambærilega klukku og er í Evrópu og færa okkar klukku fjær sólargangi þá hafi verið miðað við tíma faxtækjanna. Mér finnst samskipti hafa breyst mikið. Við getum haft alls konar samskipti núna við umheiminn.

Við færumst nær Bandaríkjunum í tíma með því að seinka klukkunni hér. Það getur vel verið að margir vilji það. Ég held að það hugnist til dæmis, svo að ég gantist nú með það í galgopahætti, áherslum núverandi ríkisstjórnar. [Hlátur í þingsal.] Ef við setjum þetta í pólitískt samhengi utanríkismála getur vel verið að forsendur fyrir því að þessi tillaga verði samþykkt séu ansi góðar.

Við opnum á það í tillögu okkar að ef sjónarmið eru rík um það að menn vilji hafa hér björt kvöld á sumrin, þó svo að þau séu mjög björt nú þegar, og vilji hafa sérstakan sumartíma og svo vetrartíma og fara þá í það að breyta klukkunni síðustu helgina í október og síðustu helgina í mars þá getur það verið málamiðlun, en ég tek undir þau sjónarmið sem komu til dæmis fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að ekki sé tilefni til þess. Mér fyndist betra ef við mundum halda því skipulagi að hafa bara einn tíma. Mér finnst ekki til það mikils að vinna að hafa sérstakan sumartíma til að auka birtuna síðdegis og á kvöldin yfir sumartímann á Íslandi vegna þess að þá er sólin það hátt á lofti. Enn og aftur, ég hafna ekki sólmiðjukenningunni með því að tala með þessum hætti. Ég held að við ættum bara að breyta klukkunni með einni aðgerð og hafa hana varanlega.

Síðan vil ég taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar. Þetta er í sjálfu sér frekar lítið mál og mjög margar þjóðir gera þetta tvisvar á ári. Þegar ég bjó í Bretlandi missti ég satt að segja einu sinni af kvikmynd og mætti einu sinni klukkutíma of snemma í bíó á sama árinu vegna þess að ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að verið væri að breyta klukkunni, ég var óvanur því. Þetta er auðvitað svolítið hringl en þjóðirnar sem gera þetta eru fullkomlega vanar því.

Ég mæli með því fyrir alla þá sem hafa áhuga á þessu og vilja spá mikið í þetta að breyta einfaldlega klukkunni sinni. Ég gerði það, prófaði það í nokkra daga. Það var svolítil hugaræfing að ná að samræma klukkuna mína við íslenskan tíma en ég held ég hafi náð að mæta tímanlega á alla fundi sem ég átti þann daginn. En það sem ég uppgötvaði til dæmis var einfaldlega að þegar byrjaði að birta í lok nóvember þá var klukkan hjá mér níu og mér fannst það mikill munur. Ég held að ef við gerðum þetta mundum við sjá hverju við værum að missa af. Ég held að við mundum fljótt skynja það, velflestir Íslendingar, hvað þetta er mikilvægt. Ef það verður landlæg tilfinning að við viljum ekki hafa það þannig þá getum við breytt klukkunni til fyrra horfs. Ég tek undir þau sjónarmið að þetta sé mikilvægt mál, að við eigum að hafa klukkuna rétta, en það er líka hægt að breyta henni aftur. Ég held að við mundum virkilega sjá breytingar í betri líðan þjóðarinnar og betri lífsgæðum ef við seinkuðum klukkunni og fjölguðum björtum morgnum. Við mundum sjá nýja tíma.