143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er mjög hissa og hugsi yfir því að þingflokkar minni hlutans hafi ekki fengið kynningu á þessu fyrir blaðamannafundinn út af því að við fengum öll beiðni um að svara fyrir afstöðu okkar til málsins strax í kjölfar blaðamannafundarins og höfðum margar áleitnar spurningar. Ég mætti á staðinn til að vera alveg örugglega vel inni í málunum en það voru margar spurningar sem ég fékk ekki heimild til að spyrja á þessum blaðamannafundi — því að þetta var blaðamannafundur. Til að tryggja að það verði samvinna um þessi mál þarf ríkisstjórnin að sýna eitthvað annað en að væna okkur um lygar og það að við ætlum að bregða fæti fyrir þessar tillögur áður en þær eru lagðar fram. Síðan þegar búið er að leggja þær fram er okkur ekki einu sinni boðið að fá kynningu á þeim.