143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég beini því til hæstv. þingforseta að skoða þetta mál með stjórnarflokkunum. Það var samþykkt hér á sumarþingi þingsályktunartillaga eftir töluvert mikla umræðu sem skapaði forsendur fyrir þeirri skýrslu sem var afhent fyrir helgi. Þá var sérstaklega óskað eftir því af minnihlutaflokkunum að eiga fulltrúa í þeirri vinnu. Sagt var þegar það var borið upp að þetta væri sérfræðingavinna en að sjálfsögðu yrðu minnihlutaflokkarnir hafðir með í ráðum eða upplýstir um hvað væri að gerast.

Gott og vel, það var gert á blaðamannafundi. Þá hefði maður haldið að það yrði fyrsta mál hér eftir helgina að menn kynntu niðurstöðurnar þannig að við gætum tekið þátt í upplýstri umræðu sem hingað til hefur falist í því að segja að allt sem við segjum sé misskilningur eða lygi eða fyrirsjáanlegt vegna þess að við hefðum tekið einhverja afstöðu. Þetta er málefnalega umræðan. Síðan á þetta að vera eitthvað sem við fáum ekki einu sinni tækifæri til að spyrja um. Þetta gengur auðvitað engan veginn svona og er ekki í neinu samræmi við þau fyrirheit sem gefin voru.

Ég bið bara hæstv. forseta að beina því til stjórnarflokkanna að upplýsa ekki bara okkur heldur (Forseti hringir.) líka sína eigin menn. Mér skilst að þeir hafi fengið klukkutíma til að skoða þetta til að geta svo farið að bera boðskapinn út. (Forseti hringir.) Aðeins voru tveir þingmenn tilgreindir sem komu fyrir nefndina sem samdi skýrsluna.