143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

greiðsluvandi heimilanna.

[15:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra um skuldaúrlausnir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru nú um helgina. Í þeirri skýrslu sem kynnt var og í þeirri miklu kynningu sem fram fór kom margt athyglisvert fram. Eitt er það að viðurkennt er hversu miklum árangri skuldaaðgerðir síðustu ríkisstjórnar skiluðu og lætur nærri að heildarniðurfærslan sem nú er lagt upp með, 80 milljarðar, sé jafn mikið og árangurinn af skuldalækkunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili, þótt ekki séu taldar með þær lækkanir sem urðu vegna ákvarðana dómstóla.

Það er líka orðið ljóst að farið er að þynnast ansi mikið í hinum hástemmdu yfirlýsingum um heimsmetið. Hér er ekki verið að lækka skuldir um 240 eða 300 milljarða eins og hæstv. forsætisráðherra rakti fyrir kosningar og ekki er verið að lækka skuldir um 20% eins og líka var látið í veðri vaka fyrir kosningar. Og það er ekki þannig að hrægammar eigi að borga kostnaðinn, heldur er ríkissjóður látinn taka áhættuna af því að lækka skuldir með þessum hætti.

Hér er því niðurstaða sem er nokkuð fjarri því sem lagt var upp með. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra við þessar aðstæður: Hvernig á síðan að leysa greiðsluvandann sem eftir er? Það er almennt viðurkennt, af hálfu forsætisráðherra og fjármálaráðherra, að þessi lausn muni ekki leysa vanda þeirra sem eru í sérstökum vanda með að ná endum saman. Eftir stendur að það er fullt af fólki sem þarf frekari úrlausn, fólk sem er með lánsveð, fólk sem fór í gegnum 110%-leiðina og þarf á frekari aðstoð að halda og sértæka skuldaaðlögunin dugði ekki öllum sem hana fengu. Hvað munu þær aðgerðir kosta? Hver áætlar fjármálaráðherra að verði viðbótarreikningurinn til að leysa ekki bara skuldavandann (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin er að leysa með þessari aðgerð, heldur greiðsluvandann sem er óleystur?