143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

eftirlit með gagnaveitum.

[15:53]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það vantar oft upp á að það séu einhver viðurlög við til dæmis þessu sem átti sér stað um helgina. Það má eiginlega segja að þessi hakkari hafi gert okkur einn greiða þó að ég sé alls ekki hlynnt því sem viðkomandi gerði, þann greiða að sýna okkur svart á hvítu hve gríðarlega viðkvæm við erum fyrir svona árásum. Við vitum að sjálfsögðu ekkert hvort einhverjir aðrir hafi skoðað þessi gögn áður.

Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort hann sjái einhvern mun á því að viðkvæmum persónuupplýsingum var lekið og komið á framfæri við fjölmiðla úr hennar eigin ráðuneyti og að viðkvæmum persónuupplýsingum var dreift víða um netið úr Vodafone-lekanum. Talað er um að kalla þá sem dreifa þessum persónulegu upplýsingum til ábyrgðar, jafnvel með ákæru.

Hver er eðlismunurinn á þessum tveimur aðgerðum í huga hæstv. ráðherra?