143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

niðurgreiðsla skulda ríkissjóðs.

[15:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2014 er ítarleg umfjöllun um mikilvægi þess að ríkissjóður komist sem fyrst í þá stöðu að geta hafið niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs. Þar er farið vandlega yfir það að afdrifaríkustu áhrif hrunsins á ósjálfbærni í rekstri ríkissjóðs stafi af stóraukinni skuldabyrði og rætt er um stór úrlausnarefni, svo sem vanda Íbúðalánasjóðs og lífeyrisskuldbindingar og mikilvægi þess að ríkissjóður hafi bolmagn til að vera bakhjarl fyrir samfélagið og áhrif á stöðu ríkissjóðs á hag fólksins í landinu.

Þar segir einnig, með leyfi forseta:

„Við blasir að þessi mikla skuldsetning og tilheyrandi vaxtabyrði er óviðunandi áhættuþáttur í ríkisrekstrinum þar sem ekki má mikið út af bregða án þess að það raski brothættu jafnvægi ríkisfjármálanna, hvort sem er í tengslum við afnám gjaldeyrishafta eða ófyrirséðar þrengingar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Í versta falli getur skuldsetning af þessari stærðargráðu orsakað vítahring hækkana á vaxtakostnaði og skuldastöðu sem reynst gæti þrautin þyngri að rjúfa.“

Virðulegi forseti. Sérfræðingar sem kynntu tillögur sínar í gær birta mælingar sem sýna að aðgerðir til að hrinda þeim í framkvæmd hafi lítil efnahagsleg áhrif. Ég geri ráð fyrir, m.a. í ljósi umfjöllunar í fjárlagafrumvarpinu, að farið hafi fram samanburðargreining á tillögum sérfræðinganna og efnahagsáhrifum þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs um 20 milljarða kr. á ári næstu fjögur árin og vil því spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um áhrif þess á helstu hagstærðir og kjör almennings í landinu að grynnka á skuldum ríkissjóðs um 80 milljarða á næstu fjórum árum.