143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

niðurgreiðsla skulda ríkissjóðs.

[16:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Sérfræðingar segja að þessi stærsta efnahagsaðgerð ríkisstjórnarinnar eigi að hafa lítil efnahagsleg áhrif. Hagfræðiprófessor segir alveg ljóst að ríkissjóður muni bera kostnað af skuldaniðurfellingunum sem geri skuldastöðu ríkissjóðs þá enn verri og þjónustu ríkisins rýrari við þá sem helst þurfa á henni að halda. Aðrir sérfræðingar velta fyrir sér hvaða áhrif lægri vaxtagreiðslur á ári hefðu og áhrif lækkunar skulda á lánshæfismat ríkissjóðs og jákvæðar afleiðingar þess á hag allra í landinu og tala einnig um neikvæð efnahagsleg áhrif aðgerðanna sem boðaðar eru og að það muni bitna á almenningi. Skoðanir virðast því skiptar og það er margt óljóst.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann telji sjálfur að efnahagsleg áhrif aðgerðanna sem boðaðar eru séu í takti við þær efnahagslegu áherslur sem lagðar eru í fjárlagafrumvarpinu er varða stöðu ríkissjóðs, afnám gjaldeyrishafta, vaxtastig, verðbólgumarkmið og lánshæfismat.