143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

niðurgreiðsla skulda ríkissjóðs.

[16:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Já, ég tel að þessar aðgerðir séu í góðum takti við efnahagsáherslur ríkisstjórnarinnar heilt yfir. Eins og ég rakti áðan höfum við margar leiðir til þess að vinna á skuldavanda ríkissjóðs aðrar en þá sem hv. þingmaður heldur hér á lofti, sem er sú að nýta svigrúmið frekar til uppgreiðslu skulda en til þess að styðja við heimilin. Ég fæ ekki betur heyrt en að hv. þingmaður sé með miklar efasemdir um að það sé skynsamleg ráðstöfun að … (Gripið fram í: Það kom ekki fram.) — Nei, en mér heyrist vera efasemdartónn (Gripið fram í: Það er rangt.) í það minnsta. Ég verð að áskilja mér eitthvert lágmarkssvigrúm til þess að reyna að rýna í ræðu hv. þingmanns. Sé það svo að þingmaðurinn sé ekki búinn að lýsa afstöðu til hugmyndanna en er með einhverjar vangaveltur var erfitt að komast hjá því að skynja efasemdartóninn. Það er ágætt.

Ég tel að þingið muni þurfa að fara mjög gaumgæfilega yfir efnahagsleg áhrif af þessum aðgerðum. Ef við horfum eingöngu á skuldir ríkisins höfum við margar aðrar leiðir (Forseti hringir.) til þess að takast á við þær, en við getum ekki skilið heimilin eftir út undan. Þetta er ekki spurning um að velja (Forseti hringir.) annars vegar á milli þess að greiða niður skuldir ríkisins og hins vegar (Forseti hringir.) að koma heimilunum til aðstoðar.