143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

ríkisstyrkt flug.

128. mál
[16:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um ríkisstyrkt flug, eins og ég kalla það hér, en það kallast í samgönguáætlun styrkt innanlandsflug. Í fyrirspurninni er fjallað um fjóra staði; Gjögur, Grímsey, Þórshöfn og Vopnafjörð, en ég vil geta þess að það eru alls sex staðir með styrkt innanlandsflug samkvæmt samgönguáætlun, sem sagt líka Höfn í Hornafirði og Bíldudalur.

Þetta flug hefur verið styrkt með útboði, flugrekendur hafa boðið í það og tekið að sér að fljúga til þessara staða gegn ákveðinni greiðslu úr ríkissjóði. Ef ég man rétt var samningurinn fyrir árin 2011 og 2012 framlengdur og reyndar þetta ár líka og gilti það tilboð sem flugrekendur gerðu í styrkt innanlandsflug.

Í kjördæmavikunni, þegar við þingmenn fórum um kjördæmi okkar og hittum sveitarstjórnarmenn og aðra, kom fram að þeir höfðu verulegar áhyggjur af því hvort slíku styrktu innanlandsflugi yrði haldið áfram til þessara staða. Í mínu kjördæmi er um að ræða Grímsey, Þórshöfn og Vopnafjörð og ég veit til þess að spurt var um þetta í öðrum kjördæmum.

Þess vegna er þessi fyrirspurn lögð fram, til að spyrjast fyrir um áform hæstv. innanríkisráðherra og ríkisstjórnar um þetta styrkta innanlandsflug sem fregnir eru um að þurfi að bjóða út sem fyrst til að fá í það ný tilboð. Verður ekki örugglega haldið áfram með styrkt innanlandsflug til þeirra staða sem þess hafa notið hingað til?

Hvernig sér ráðherrann fyrir sér framhald á ríkisstyrktu flugi til Gjögurs, Grímseyjar, Þórshafnar og Vopnafjarðar? Auðvitað bætast þá við Höfn í Hornafirði og Bíldudalur samkvæmt þeim samningum sem verið hafa í gildi.