143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

Húsavíkurflugvöllur.

129. mál
[16:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna svari hæstv. innanríkisráðherra um það að þjónustusamningur við Isavia um rekstur Húsavíkurflugvallar sé orðinn klár fyrir árið 2014 og verði óbreyttur, vonandi verður það bara þannig og það er allt í lagi að líta á það þannig meðan við erum að sjá hvernig flugið þróast. Ég vil samt ítreka að ég er sannfærður um að flugið muni aukast mjög mikið á næsta ári og tel því mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að vinna að því að gera varanlegan samning til langs tíma, þjónustusamning um rekstur Húsavíkurflugvallar, vegna þess að eins og við vitum er hann er kominn í tölu áætlunarflugvalla á þessu ári í stað þess að vera lendingarstaður án áætlunarflugs. Það er mjög ánægjulegt að Flugfélagið Ernir skuli fljúga til Húsavíkurflugvallar og vera með þá miklu og góðu þjónustu sem þeir veita og Húsvíkingar og ferðamenn og aðrir hafa tekið sannarlega vel eins og farþegatölur segja til um.

Varðandi seinni hluta spurningarinnar, þ.e. um aðflugsmælinn og hallamælinn, aðflugsvitann og fjarlægðarmælinn, vona ég að hæstv. innanríkisráðherra beiti sér fyrir því í þeim þjónustusamningi sem gerður verður milli ríkisins og Isavia um rekstur allra annarra áætlunarflugvalla fyrir utan Keflavíkurflugvöll verði þessi tæki tryggð.

Mig langar, virðulegi forseti, um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið að spyrjast fyrir um það hvort henni sé kunnugt um hvort Isavia sé að leita einhverra ódýrari lausna hvað varðar fjarlægðarmælinn og aðflugshallamælinn en þessar 60 milljónir kveða á um.