143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

eign Byggðastofnunar á Breiðdalsvík.

134. mál
[16:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið þó að hann hafi nú hryggbrotið mig svolítið með því að koma ekki bara með stutt og einfalt já að þessu sinni. En hann gladdi mig með síðustu orðum sínum um að hann vildi fullvissa okkur þingmenn um það að Byggðastofnun hefði góð áform gagnvart þessu húsi og byggðarlaginu.

Ég held að þetta sé nefnilega ákaflega mikilvægt. Það er ekki oft sem sveitarfélag vill taka við svo stórri og mikilli eign í sína umsýslu. Eins og ég sagði er hún á áberandi stað og hefur mikinn kostnað í för með sér fyrir Byggðastofnun. Þess vegna er ég alveg sannfærður um það, virðulegi forseti, að langfarsælast fyrir Byggðastofnun væri að afskrifa þessa eign og afhenda sveitarfélaginu húsið til fullrar eignar. Hvort söluverðið yrði 1 króna eða 1 milljón skiptir í raun og veru ekki máli. En ef á að selja húsið á 20–50 milljónir er ég alveg sannfærður um að eignin verður þarna eins og hún er. Það mun hafa meiri kostnað í för með sér fyrir eigandann á komandi árum þegar þarf að fara að viðhalda húsinu þannig að það verði ekki til lýta á svæðinu.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra ræddi um íbúafund sem Byggðastofnun beitti sér fyrir á Breiðdalsvík ekki alls fyrir löngu. Það er rétt að fram komi að íbúar á Breiðdalsvík bundu mjög miklar vonir við þá ákvörðun Byggðastofnunar að sveitarfélagið væri eitt af sex sem mundu fá hluta af svokölluðum byggðakvóta stofnunarinnar. Miklar væntingar voru byggðar upp og þess vegna urðu vonbrigðin rosalega mikil á svæðinu. Það hefur verið rætt í þingmannahópi Norðausturkjördæmis með hæstv. forsætisráðherra, en þeim viðræðum er ekki lokið, þegar kom svo í ljós að Byggðastofnun hafði hætt við að veita Breiðdalsvík hluta af þessum kvóta. Þess vegna held ég að það sé ákaflega mikilvægt, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra vinni að því sem ráðherra byggðamála, sem hefur með Byggðastofnun að gera hvað þetta varðar, að beita öllum tiltækum ráðum til þess að kvóti Byggðastofnunar (Forseti hringir.) komi til svæðisins og fleiri jákvæð skilaboð verði send heim í hérað.