143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

skipulag hreindýraveiða.

135. mál
[16:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Frá því að ég fór að ferðast um hið stóra Norðausturkjördæmi og fara á fundi á Austurlandi hefur sífellt verið talað við okkur þingmenn um stjórn hreindýraveiða hjá hinu geysiöfluga Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og ýmsar ályktanir verið gerðar á vettvangi þessara samtaka hvað það mál varðar.

Í samþykkt aðalfundar Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi segir, með leyfi forseta:

„Síðasti aðalfundur samþykkti hvatningu til umhverfis- og auðlindaráðherra til þess að hefja í samráði við heimamenn vinnu við nauðsynlegar lagabreytingar svo umsýsla og stjórn hreindýraveiða verði í höndum stofnana á Austurlandi. Hreindýr eru auðlind sem fyrirfinnst aðeins á Austurlandi og því taldi fundurinn eðlilegt að umsýsla og stjórnun væri staðsett í fjórðungnum. Jafnframt verði sveitarfélögum og hagsmunaaðilum á Austurlandi gert kleift að koma að mótun regluverks í málaflokknum þannig að veiðarnar geti skilað sem mestum arði fyrir austfirsk samfélög.“

Áður hafði ég lagt fram fyrirspurn þar sem ég óskaði skriflegs svars varðandi tekjur af seldum hreindýraveiðileyfum síðustu fimm ár, þ.e. hvert þessar tekjur fara og hvernig þeim er skipt á milli aðila. Hæstv. ráðherra hefur svarað þessum spurningum skriflega. Þar kemur fram að í samræmi við reglugerð nr. 487/2003, þar sem kveðið er á um framkvæmd hreindýraveiða, sölu veiðileyfa til hreindýraveiða, gjaldtöku og skiptingu tekna af sölunni, er arður og felligjöld til landeigenda eða ábúenda síðastliðin fimm ár 412 millj. kr. Á sama tíma hefur Umhverfisstofnun fengið í kringum 50 millj. kr. af veiðigjaldinu fyrir umsýslu og á það að standa undir kostnaði við stjórn og eftirlit með hreindýraveiðunum, eins og stendur í svarinu.

Náttúrustofa Austurlands hefur fengið 25 millj. kr. á þessu fimm ára tímabili. Þeim tæplega 500 millj. kr. sem komið hafa inn er skipt með þessum hætti. Þess má geta að þeir sem fá greiddan arð af hreindýraveiðunum eru um 900 talsins. Náttúrustofa Austurlands er sú stofnun sem gæti séð hvað best um þessar veiðar en fær, eins og áður sagði, aðeins 25 millj. kr. af þessum 487 millj. en Umhverfisstofnun, sem falið er stærra hlutverk, fær 50 millj. kr.

Austfirðingar óska eftir að fá þessa starfsemi til sín heim í hérað, á svæðið. Það er líka stefna sem ég held að við séum öll hrifin af, að færa stjórn og umsýslu sem næst heimasvæðinu.

Fyrirspurn mín til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um þetta mál hljóðar einfaldlega svona:

„Er ráðherra tilbúinn til að hefja undirbúning að nauðsynlegum lagabreytingum svo að umsýsla og stjórn hreindýraveiða verði í höndum stofnana á Austurlandi? Hvaða lagabreytingar þarf til í því sambandi?“