143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

skipulag hreindýraveiða.

135. mál
[16:48]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og þær yfirlýsingar að hann sé tilbúinn að taka á því með okkur í stjórnarflokkunum að einfalda regluverkið og gera það skilvirkara þar sem það á við.

Ég vil einnig taka undir það með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur að þegar verið er að aðskilja stjórnsýslu og eftirlit og framkvæmdir er mikilvægt að þetta verði ekki allt á sömu hendi. Ég vil jafnframt ítreka það sem ég sagði í svari mínu að kannski eru um 5% af starfinu í kringum þetta unnin hér á höfuðborgarsvæðinu. Engu að síður eru ákvarðanirnar teknar þar og það er spurning hvort ekki eigi að taka þær heima í héraði.

Ég vil líka koma því að að Umhverfisstofnun er sú stofnun sem kannski hefur gengið einna best í því að setja starfsstöðvar upp úti á landi og ekki sett skilyrði um það hvar menn búa. Menn geta sem sagt búið á Egilsstöðum eða á Akureyri eða í Reykjavík. Þó nokkur störf eru nú unnin á starfsstöðinni á Akureyri sem áður voru unnin hér í Reykjavík. Ef menn vilja frekar búa á Akureyri og starfa þar gerir stofnunin starfsmönnunum sínum það kleift. Það kemur ekkert niður á starfseminni vegna þess að hægt er að nýta ýmsa rafræna pósta þó að við höfum svo sem séð það um helgina að varlega þurfi að fara í þeim efnum.

Ég vil ítreka hér í lokin að þetta er verkefni sem getur hjálpað okkur við að koma fleiri og jafnvel stærri verkefnum í sama farveg, og ég tel áhugavert að vinna að þessu með heildarendurskoðun á því í huga hvernig við ætlum að haga opinberri stjórnsýslu, opinberum framkvæmdum og opinberu eftirliti.