143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

aldursmörk heilbrigðisstarfsmanna sem reka eigin starfsstofu.

190. mál
[17:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vona að við séum öll í þinginu sammála um að mikilvægasta verkefni okkar á næstu árum sé að skapa þau skilyrði hér á landi að eftirsóknarvert verði fyrir sérmenntaða lækna sem og annað hámenntað fólk að snúa aftur til Íslands til að við fáum notið menntunar þessa fólks í íslensku samfélagi. En meðan á því stendur þarf að tryggja að hér verði ekki skortur á sérfræðilæknum. Ákvæðinu þarf að breyta, ekki bara út af því heldur líka af því að um er að ræða fólk sem getur haft ágætisorku til þess að stunda eigin atvinnurekstur og vera með sérstofur og ætti þá að fá að gera það.

Ég vil taka undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um að mikilvægt sé að hafa virkt eftirlit og æskilegt að færa þetta í fyrra horf sem var 75 ár og síðan leyfi til árs í senn eftir það. Auðvitað er það svo að flestir læknar hætta þessum rekstri þegar þeim finnst það sjálfum tímabært eða einfaldlega þegar sjúklingar hætta að vilja koma til þeirra.

Í Noregi, þar sem svona ákvæði eru uppi, er um 5% þeirra lækna sem sækja um hafnað þannig að svo virðist vera að fólk finni það oft hjá sjálfu sér að hætta. En ég er sammála, það er mikilvægt að hafa virkt eftirlit með þessu.

Ég vil að lokum þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég er mjög ánægð með að heyra að þessi vinna sé í gangi í ráðuneyti hans og hvet hann til að leggja frumvarpið fram á vorþingi þannig að við í velferðarnefnd getum fjallað um það og vonandi afgreitt það. Ég hef ekki fleiri spurningar til hæstv. ráðherra enda fékk ég ákaflega greinargóð svör frá honum.