143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

aldursmörk heilbrigðisstarfsmanna sem reka eigin starfsstofu.

190. mál
[17:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns fyrir fyrirspurnina og sömuleiðis orð þeirra þingmanna sem hér tóku til máls. Ég vænti þess að góð sátt og gott samkomulag verði um það frumvarp sem kemur fram á vorþinginu og vænti góðs samstarfs við velferðarnefnd um það.

Ég held að þrátt fyrir að þetta sé svona „magískur“ aldur, 70 árin, hef ég ekki séð þá breytingu á þeim einstaklingum sem hafa rætt við mig um breytingar á ákvæðinu að þeir hafi mjög brýna þörf fyrir það að detta út af vinnumarkaði. Þetta er þvert á móti fullfrískt fólk og fært til góðra verka. Að sjálfsögðu eigum við að gefa því kost á að nýta þekkingu sína og getu til góðra verka og sömuleiðis skal það bara viðurkennt að þjóðfélagið hefur fulla þörf fyrir hæfni þessara einstaklinga til að sinna þeim verkum sem þeir telja sig best færa til.

Ég treysti flestum þeirra, velflestum, til að taka ákvarðanir á eigin forsendum um hvort þeir séu hæfir til þessara starfa, en engu að síður er nauðsynlegt í jafn viðamiklum og viðkvæmum málaflokki að hafa skilvirkt eftirlit með því hvernig starfsleyfi eru gefin út og endurnýjuð þegar farið er að nálgast starfslok stétta sem þessara. Að svo mæltu þakka ég enn og aftur fyrir góða umræðu.