143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

Ríkisútvarpið og heyrnarskertir.

194. mál
[17:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmanni fyrir þeirra innlegg og svör hæstv. ráðherra. Ég vil þó nefna tvennt í því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra. Hann nefndi að Ríkisútvarpið teldi að fjármagn skorti til að ljúka því í raun og veru að fylgja þessu ákvæði í hvívetna þegar kemur að Kastljósi, seinni fréttum og fleiri dagskrárliðum. Þá hlýt ég að benda á að það er mitt mat að útvarpsgjaldið sem við öll greiðum, líka heyrnarskertir og heyrnarlausir, eigi að renna alfarið til Ríkisútvarpsins. Ég er algjörlega ósammála þeirri stefnu sem er mörkuð núna að fresta því ákvæði í lögum um Ríkisútvarpið að útvarpsgjaldið renni óskert til almannaútvarpsins. Ég veit að hæstv. ráðherra er mér ósammála en eigi að síður kom fram í máli hans að þarna skorti fé til að hægt sé að fylgja í hvívetna þeim kröfum sem við setjum á Ríkisútvarpið.

Síðan vil ég nefna það sem mér finnst áhugavert og tengist vefútsendingum. Nú er það svo þegar við lítum á almannaþjónustumiðla, hvort sem það er BBC eða norræn ríkisútvörp, þá eru þeir allir að nýta sér netið í mjög miklum mæli og miklu meira mæli kannski en Ríkisútvarpið okkar gerir. Bent hefur verið á af einhverjum að æskilegt væri að Ríkisútvarpið fengi heimild til að afla auglýsingatekna í gegnum netið. Það væri áhugavert að fara út í þá umræðu.

En fyrst og fremst finnst mér áhugavert að heyra sjónarmið ráðherra gagnvart netinu í þessu samhengi, bæði hvað varðar þjónustu við þá sem ekki geta nýtt sér hefðbundna þjónustu Ríkisútvarpsins og sem framtíðarþróunarleið fyrir Ríkisútvarpið. Þar eru auðvitað held ég stærstu þróunarmöguleikarnir, til að mynda þegar við ræðum núna um útvarp, og mikið hefur verið rætt um inntak útvarpsdagskrár og fólk hefur haldið því fram að tími hinnar línulegu dagskrár sé liðinn. Vissulega kann það að vera rétt. (Forseti hringir.) Tími vandaðrar dagskrárgerðar er ekki liðinn og þar mun netið skipta mjög miklu máli við að dreifa þeirri dagskrá, eins og við sjáum nú þegar hjá BBC, svo dæmi sé tekið.