143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

Ríkisútvarpið og heyrnarskertir.

194. mál
[17:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til málshefjanda, hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Þessu tengt er álitaefni sem kallar á dýpri umræðu en möguleiki er á hér með þessu knappa formi, eins og þróun nýmiðla hjá Ríkisútvarpinu, með hvaða hætti slík þróun eigi að eiga sér stað.

Ég vil þó segja hvað varðar þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta að auðvitað á að nýta öll þau tækifæri sem bjóðast á þeim vettvangi til þess að aðstoða þá sem á því þurfa að halda svo þeir geti notið þess efnis sem boðið er upp á af hálfu Ríkisútvarpsins.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni hvað varðar tíma vandaðrar dagskrárgerðar. Hvað þann tíma varðar má segja að það sé alltaf að verða sterkari og meiri krafa um vandaða dagskrá. Efnið skiptir þar öllu máli af því að það er orðið svo auðvelt að dreifa því, það eru svo margar dreifileiðir núna þannig að sérstaða Ríkisútvarpsins, sem fólst áður m.a. í því að það var eini aðilinn sem gat dreift slíku efni, er löngu horfin. En það sem skiptir máli er að Ríkisútvarpið afmarki verkefni sín og þannig hefur það auðvitað verið gert. Það skiptir kannski enn meira máli nú en áður að það afmarki verkefni sín og sinni þeim eins best verður á kosið og forgangsraði þar. Ég hef þá skoðun að þar eigi að vera í forgrunni menning þessarar þjóðar, listir, saga, vísindi og annað slíkt, sem kannski er erfitt að finna hefðbundinn markað fyrir, hinn hefðbundni markaður á erfitt með að fullnægja þeim kröfum sem við gerum svo sannarlega og viljum að sé fullnægt. Það skýrir það hvers vegna við setjum þetta mikla háar fjárhæðir til Ríkisútvarpsins til þess að sinna slíkri dagskrárgerð.

Hins vegar erum við áfram, ég og hv. þingmaður, ósammála (Forseti hringir.) hvað varðar fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins eða þann niðurskurð sem er í heildarfjármunum þeim sem Ríkisútvarpið hefur á milli handanna.