143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Í gærmorgun bárust okkur fréttir af hörmulegum atburði sem fjöldi fólks þurfti að takast á við, lögreglumenn, aðstandendur, nágrannar, fjöldi viðbragðsaðila og fjölskyldur þess fólks. Hugur minn er hjá því fólki.

Samfélag okkar hefur tekið breytingum ár frá ári og mun halda áfram að taka breytingum. Þetta eru breytingar sem við þurfum að takast á við. Öryggishlutverkið er meginverkefni lögreglunnar en það felur í sér að gæta almannaöryggis, halda uppi lögum og reglum og tryggja réttaröryggi borgaranna. Það var verkefni lögreglunnar í gær og er það hlutverk sem lögreglan hefur verið að sinna og mun sinna áfram. Lögreglan býr sig undir það hlutverk, öryggishlutverkið, með því að horfa fram í tímann, gera áætlanir um mögulega aðsteðjandi hættu fyrir borgarana, mennta og þjálfa starfslið sitt og koma sér upp viðeigandi búnaði. Þessu hefur lögreglan verið að sinna vel og hefur því verið viðbúin þegar fjölmörg og margbreytileg krefjandi verkefni hafa komið upp sem lögreglan hefur þurft að takast á við og leysa. Með þeim störfum sínum hefur lögreglan skapað sér það mikla traust sem hún nýtur í samfélaginu. Slíku trausti mun lögreglan kappkosta að halda.

Einnig er nauðsynlegt að öryggi og réttindi lögreglumannanna sem sinna þessum mikilvægu störfum séu tryggð. Starf lögreglunnar er mikilvægt og það ber að meta. Ég veit að við öll, hv. alþingismenn, erum sammála um að sýna áfram ábyrgð í því að gera lögreglunni kleift að axla þær skyldur sem við höfum lagt á herðar henni og halda því trausti sem þjóðin ber til lögreglunnar.