143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur kannski ekki farið mikið fyrir því í þjóðfélagsumræðunni að dagurinn í dag, 3. desember, hefur af Sameinuðu þjóðunum verið útnefndur alþjóðadagur fatlaðs fólks. Deginum er ætlað að ýta undir þekkingu og skilning á málefnum fatlaðs fólks svo það geti lifað eðlilegu lífi til jafns við aðra. Slagorð þessa dags og áherslumál hafa verið ólík frá ári til árs. Þekktust er líklega yfirskriftin frá árinu 2004: Ekkert um okkur án okkar, sem Öryrkjabandalag Íslands hefur tekið upp og flestir þekkja.

Yfirskrift dagsins í dag er á ensku, með leyfi forseta, „Break Barriers, Open Doors: for an inclusive society and development for all“ sem mætti útleggja sem: Ryðjum burt hindrunum fyrir samfélag þar sem allir taka þátt. Hindranirnar sem ryðja þarf úr vegi eru margvíslegar. Þær geta bæði verið óáþreifanlegar, svo sem viðhorf fólks, og efnislegar, t.d. í formi óaðgengilegra bygginga. Og oft er þetta tvennt samtvinnað sem leiðir hugann óneitanlega að neikvæðri umræðu sem orðið hefur vart í þjóðfélaginu og líka héðan úr ræðustól Alþingis, t.d. um nýlega byggingarreglugerð sem samþykkt var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það má bara ekki gerast að litið sé á aðgengismál og samfélagsþátttöku fatlaðs fólks sem gæluverkefni.

Virðulegi forseti. Þau lög sem samþykkt eru á Alþingi hafa mótandi áhrif á aðstæður fólks. Ísland er aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hann þurfum við að fullgilda og leiða í íslensk lög og treysta þannig stoðirnar svo fatlað fólk geti lifað eðlilegu lífi.