143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ofbeldi gegn konum er brot á mannréttindum og ein birtingarmynd kynbundinnar mismununar. Ofbeldi gegn konum hindrar þær í virkni, hvort sem er í atvinnulífi, félagslífi, stjórnmálum eða menningarlífi. Konur sem eru fórnarlömb ofbeldis þjást bæði líkamlega og andlega og samfélagslegur kostnaður kynbundins ofbeldis er mikill og felst einkum í kostnaði heilbrigðiskerfisins, vegna lögreglu og lögfræðinga, vegna minni framleiðslugetu og launamissis. 20–25% evrópskra kvenna hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi að minnsta kosti einu sinni á fullorðinsárum sínum og yfir 10% hafa þjáðst vegna kynferðislegs ofbeldis. Sjö konur deyja af völdum heimilisofbeldis á hverjum degi í Evrópu einni.

Íslendingar eru því miður engin undantekning hvað þetta varðar. Hrafnhildur Ragnarsdóttir, fyrrverandi formaður kvennahreyfingar Samfylkingarinnar, skrifaði áhrifamikla grein á dögunum og segir þar, með leyfi forseta:

„Við vitum að ofbeldi gegn konum er alþjóðlegt vandamál. Við heyrum fréttir frá löndum þar sem geisar stríð og nauðganir á konum er eitt af stríðsvopnum andstæðinganna. En það er ekki bara stríð í útlöndum og nauðgunum er ekki bara beitt sem vopni annars staðar. Það ríkir líka stríð gegn konum hér, en það fer fram hljóðlaust innan veggja heimilanna, heimila kvennanna sjálfra eða þar sem þær koma sem gestir.“

Virðulegi forseti. Það er margfaldlega þess virði að leggja kostnað í forvarnir á þessu sviði. Við viljum öll að litlu stelpurnar okkar geti um frjálst höfuð strokið alla ævi og geti óhindraðar látið drauma sína rætast. En til að svo megi verða þurfum við öll að standa saman gegn kynbundnu ofbeldi og við í þessum sal ættum að beita áhrifum okkar af krafti.