143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða hér skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar, niðurstöðu sérfræðingahópsins. Ég legg áherslu á að um er að ræða stefnumótandi áætlanagerð, aðgerðaáætlun.

Við segjum gjarnan að í upphafi skuli endinn skoða. Það gerði ríkisstjórnin þegar í stjórnarsáttmálanum. Ég ætla að rifja það upp hér og lesa það sem þar stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði.“

Þessu fylgdi ríkisstjórnin síðan eftir í þingsályktun þar sem leiðin var vörðuð, stakar aðgerðir eyrnamerktar, ábyrgðarvæddar og tímasettar. Nú er komið að framkvæmdaþætti þessarar stefnumótandi áætlunar. Útfærslan hefur verið kynnt og um er að ræða almenna efnahagslega aðgerð, setta fram með sanngirnis-, réttlætis- og jafnræðisrökum. Þetta er mikilvægt skref í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og fram undan er stórt skref í uppgjöri við hrunið.

Virðulegi forseti. Það er mikil og vönduð vinna að baki, aðgerðirnar eru settar fram í vandaðri skýrslu. Þær eru hófstilltar og hafa umfram allt jákvæð áhrif á helstu hagstærðir. Við erum þó með báða fætur á jörðu með það að mikil vinna er fram undan, framkvæmdin sjálf. Hingað til hefur allt í stefnumótunarferlinu staðist, allir hafa skilað sínu (Forseti hringir.) og allar tímasetningar staðist. Fyrir það ber að hrósa. (Forseti hringir.) Það gefur vissulega tilefni til bjartsýni á að framkvæmdin heppnist vel.