143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Loksins komu langþráðar tillögur frá sérfræðingahópnum sem skipaður var til að móta tillögur sem miða að því að leiðrétta forsendubrest verðtryggðra húsnæðislána heimila í landinu. Ekki var það minni léttir fyrir mig en hv. þingmenn sem hafa hrópað eftir þeim tillögum frá því að þing var sett í sumar. Strax eftir hrun var byrjað á að tryggja fjármagnseigendum innstæður sínar í gjaldþrota bönkum. Peningamarkaðsbréf voru tryggð 80–90% og stærstur hluti erlendra lána hefur verið leiðréttur og endurreiknaður.

Það er því kærkomið að koma til móts við þann hóp sem enga leiðréttingu hefur fengið, heldur lagt sitt af mörkum og haft það í forgangi að standa í skilum, með leiðréttingu um þá fjárhæð sem samsvarar verðbótum umfram 4,8% sem féllu til á tímabilinu desember 2007 til ágúst 2010. Þetta samsvarar um 13% leiðréttingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Auk þess gefst kostur á því að nýta greiðslur sem ella rynnu inn í séreignarsjóð til að greiða inn á húsnæðislán og mun ríkissjóður gefa eftir tekjuskatt af allt að 4% iðgjaldi launþega og 2% mótframlagi vinnuveitenda. Þannig má í sumum tilfellum fá allt að 20% leiðréttingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Hver hefði trúað því?

Gert er ráð fyrir að hrein áhrif á ríkissjóð séu óveruleg, auk þess sem aðgerðin afléttir efnahagslegri óvissu er varðar skuldamál heimilanna. Samhliða lækkun skulda mun aðgerðin auka ráðstöfunartekjur heimila og hvetja til sparnaðar með skattleysi séreignarlífeyrissparnaðar. Þá myndast aukinn hvati til fjárfestinga þegar heimilin öðlast styrk á ný og hafa meira svigrúm til fjárfestinga. Að sjálfsögðu er þetta ekki allsherjarlausn heldur einn liður af mörgum til að endurreisa íslenskt efnahagslíf og ég trúi ekki öðru en að við getum sameinast um að koma þessum tillögum í framkvæmd hvar í flokki sem við erum.