143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Það eru ekki tíðindalitlir dagar á Íslandi núna og af mörgu að taka. Ég verð þó að nefna eitt mál sem er okkur öllum örugglega mjög hugleikið en það er niðurstaða íslenska menntakerfisins í PISA-könnun núna sem var kynnt í morgun. Það að 30% pilta geti ekki lesið sér til gagns á Íslandi er mikill áfellisdómur yfir íslenska menntakerfinu. Frammistöðu nemenda hefur hrakað svo mikið að það nemur sem hálfu skólaári á tíu árum. Nú getum við ekki kennt um fjárskorti því að ekki er um það að ræða í þessu tilviki.

Það hefur verið mín tilfinning, þó að það sé að vísu ekki bara bundið við grunnskólann en hann er þó grunnurinn að þessu öllu saman, að grunnskólinn hafi verið nokkuð munaðarlaus í umræðunni og kannski hvað varðar ábyrgð líka eftir að hann færðist frá ríkinu yfir til sveitarfélaga. Hann hefur alls ekki fengið þann sess í umræðunni sem hann ætti að hafa. Það er kannski ein ástæðan fyrir því að staðan er eins og raun ber vitni.

Ég vek athygli á því að margir hafa bent á þetta eins og til dæmis Hermundur Sigmundsson prófessor sem hefur stúderað þetta með þekktum aðilum, menntastofnunum. Hann telur að skóladagurinn sé ekki skipulagður með þarfir barns í huga. Hann leggur til dæmis mikla áherslu á hinn einfalda hlut sem heitir hreyfing. Ef við hugsum það, því að flest okkar voru kannski í svipuðum grunnskóla, vorum við bæði styttra yfir daginn í skólanum og styttra yfir vikuna, en náðum eðli máls samkvæmt að hreyfa okkur miklu meira. Ég er ánægður með viðbrögð hæstv. ráðherra, það sem ég hef séð til hans í dag, og hvet hann sem og alla aðra sem að málinu koma, sem eru fjölmargir og ekki bara á vegum ríkisvaldsins, (Forseti hringir.) að setja þetta mál í forgang því að við Íslendingar getum ekki unað við stöðuna eins og hún er núna.