143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla að leyfa mér að gera ákvörðun forsætisnefndar, um að kæra deiliskipulagið sem borgarráð Reykjavíkur samþykkti 23. júlí sl., að umræðuefni. Mér finnst þessi ákvörðun mjög einkennileg að öllu leyti og sannast sagna átta ég mig ekki alveg á því hvernig staðið er að ákvörðunum eins og þessari. Ég hafði alla vega ekkert heyrt um hana fyrr en ég las um hana í blöðunum og reyni ég þó að fylgjast nokkuð náið með því sem hér fer fram.

Lögmannsstofan Lex sendi sem sagt, fyrir hönd Alþingis, kæru þann 8. nóvember sl. Ég ætla ekki að fjalla um kæruna í einstökum liðum en vil þó gera athugasemd við eftirfarandi, sem sagt er um frumvarp fyrrverandi hæstv. forseta Alþingis, sem hún lagði fram á síðasta þingi.

Um þetta segir í kærunni, með leyfi forseta:

„Þótt frumvarpið hafi ekki orðið að lögum stendur til þess pólitískur vilji að Alþingi geti haft í bráð og lengd áhrif á skipulag og mannvirkjagerð í næsta nágrenni.“

Hér finnst mér nokkuð einkennilega farið með þessi tvö orð „pólitískur vilji“. Er það þá allt sem hvert og eitt okkar hér leggur fram? Er það ekki einhver spurning um hve margir eru á bak við þann pólitíska vilja og er það þá kannski þannig að það sé vilji Alþingis að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögum þegar Alþingi hentar?

Aukin umferð hér í nágrenninu er mikið áhyggjuefni, ef marka má kæruna. Ég hef lítið orðið vör við mikla umferð eða mikið mannlíf hér í nágrenninu nema á fallegum vor- og sumardögum og hefur það ekki truflað mig. Og ég spyr: Hefur það truflað aðra hv. alþingismenn hér? Eigum við kannski von á því að við bönnum þessa veitingastaði á meðan þing situr eða ætlum við kannski bara að athuga hvort við getum bannað gott veður?